Farin var vinnuferð á Réttartorfu fyrstu helgina í júní. Farið var með leirtau og mataráhöld fyrir 24, potta og pönnu. Sett var upp hilla undir hluta af þessum áhöldum, veitt nokkru ljósi inn í snyrtihús og viðarvörn borin á snyrtihúsið og eins hátt á skálann sjálfan og til náðist.
Fyrsti fundur haustsins var haldinn 1. september. Þar greindu skálanefnd, ferðanefnd og sýninganefnd frá því hvað væri á dagskrá hjá þeim í vetur. Eftir stutt kaffihlé hélt sagði Freyr Jónsson síðan frá ferð sinni á Suðurskautslandið og sýndi skyggnur sem teknar voru í ferðinni. Fundinn sóttu um 40 manns.
Farin var vinnuferð á Réttartorfu helgina 12.-13. september. Snjór var frá Víðikeri blautur og háll. Gluggi var settur á snyrtihúsið og birti mikið í húsinu. Inni var settur bekkur í eldhúsið við suðurvegginn með hillu undir. Einnig var gengið frá listum í forstofu og gereftum við millihurðina. Sólóvél og gólf í skálanum þrifin.
Októberfundurinn var haldinn 6. október. Á dagskrá var 33″ ferð, landsfundurinn í lok október og spjall um sýninguna í Laugardalshöllinni. Eftir kaffi hélt Anton síðan myndasýningu frá Vatnajökulsferð í september.
33″ ferðin var farin 10.-11. október og var hún hugsuð sem kynningarferð fyrir nýja félaga. Í henni voru 13 bílar, þar af 5 utanfélagsbílar og af þeim skiluðu sér 3 nýir félagar. Í hópnum voru 21 fullorðinn og 7 börn og náðu allir vel saman. Farið var frá Leirunesti kl 10 á laugardagsmorgni og ekin leiðin frá Svartárkoti í gegnum hraunið og gekk ekkert of vel að finna slóðina, en snjór var þarna mun meiri en búist var við. Nýliðarnir fylgdu vel eftir og stóðu sig með prýði en þrír bílar voru með öllu óbreyttir. Stoppað var stutt við á Réttartorfu og ekið að Krossárgili, gengið drjúgan spöl upp með því og höfðu allir gaman af. Síðan var ekið upp á Hafurstaðarhlíðina en snúið fljótt við aftur á Réttartorfu, þar sem hætta var á landspjöllum. Grillið var kynnt og setið eitthvað frameftir við spjall. Vaknað kl. 8 á sunnudeginum og lagt af stað kl 10 og ekið Hrafnabjargavað. Ekki var mikið í fljótinu og komust allir bílarnir klakklaust þar yfir. Kíkt var á Aldeyjarfoss og síðan ætluðu menn að drekka kaffi að Fosshóli en þar reyndist lokað svo það var bara rennt heim.
Nóvemberfundurinn var haldinn 3. nóvember. Á dagskránni var skýrsla um landsfund klúbbins í Setrinu helgina áður, rætt um 44″ ferð næstu helgi á eftir og Þórður Helgason sýndi ýmsar gerðir af dráttartógum og útskýrði eiginleika þeirra. Einnig fór fram sala á bolum og öðrum minjagripum frá sýningunni.
44″ tommu ferðinni , sem átti að fara 6.-8. nóvember, var frestað vegna veðurs. Hún var síðan farin viku seinna og var aðalmarkmið ferðarinnar að skoða framhlaup Hagafellsjökla.
Fjórir bílar lögðu af stað frá Veganesti kl. 19:30 á föstudagskvöld og fóru inn á Hveravelli. Seinna um kvöldið kom síðan einn félagi okkar frá Reykjavík Daginn eftir bættust síðan tveir bílar til viðbótar í hópinn og var síðan ekið um Langjökul. Þar sem séð var að komið yrði myrkur þegar komið væri að áðurnefndum jöklum var ákveðið að gisa á Húsafelli.
Á sunnudeginum var ekið um Kaldadal og línuveginn og Leynifoss og Nýifoss skoðaðir. Lítið bar á framhlaupi jökla, aðeins smákúla uppi í þeim vestari og bylgja ofarlega í þeim eystri. Með því að fara upp með Jarlhettum og gegnum skarð í þeim var þó hægt að komast að stað þar sem jökullinn var að leka fram af móbergsklettum og heyrðust þar brestir og vatn kom í smá gusum undan jöklinum. Augljóst var að jökullinn hafði gengið
fram síðan síðast snjóaði, því hann hafði ýtt fönninni upp á undan sér.
Eftir þessa náttúrskoðun var ekið heim um Kjalveg í stjörnubirtu undir eldfjörugum norðurljósum.
Desemberfundurinn var haldinn . desember. Jóhannes Geir, stjórnarformaður Landsvirkjunar kom og ræddi um Landsvirkjun og framkvæmdir hennar. Á eftir sýndu Smári og Anton myndir, m.a. úr 44″ ferðinni mánuði fyrr.
Tvær vinnuferðir voru farnar, önnur fyrir en hin eftir áramótin og er nú búið að setja upp sólarrafhlöðu og raflýsingu í skálann. Einnig var sett handrið á stigann og kringum uppgönguna, bætt við eldsneytisbirgðir og farið með efni í brennu á þrettándagleði.
Janúarfundurinn var 5. janúar. Umræðuefnið var ferðir á vegum klúbbsins fram á vor. Efst á baugi var „stórferð“ í samvinnu við aðrar deildir á Norðurlandi.
Bjórkvöld var haldið 8. janúar á Furuvöllunum og mættu ríflega 30 manns og skemmtu sér vel. Þeir hraustustu létu sig ekki muna um að fara vinnuferð daginn eftir.
Óveðursferð. Þrettándagleðina átti að halda 16. janúar og lögðu 8 bílar af stað frá Akureyri föstudagskvöldið 15. janúar þrátt fyrir að veðurspá væri afar vond. Hvasst var og skafrenningur, en þó vel fært veður uns komið var austur yfir brúna hjá Stóruvöllum í Bárðardal. Þar jókst úrkoman og var komið mikið kóf, en heldur hægara veður. Þegar kom upp í brekkurnar hjá Rauðafelli bætti í vind og var komið hið versta veður og var skyggnið um helmingur af bili milli stika.
Er upp að Svartárkoti kom var veðrið orði snarbrjálað og tók það leiðangurinn um tvo til þrjá tíma að komast 300 metra suður frá fjárhúsunum og til baka að þeim aftur. Á þeirri leið var reyndar búið að skilja eftir tvo bíla, annan fastan og hinn ógangfæran. Tveir bílar létu fyrir berast undir fjárhúsveggnum en fjórir sneru við niður Bárðardal aftur og tók það þá hátt í klukkutíma, með mann í bandi á undan bílunum, að komast aftur út fyrir túnhliðið á upphækkaðan og stikaðan veg. Ekki var þó um neina hraðferð þar að ræða hjá þeim því, það tók þá 7 klst. að komast niður að Fosshóli, en þar fengu þeir gistingu um 9 á laugardagsmorgni. Á sunnudeginum var veðrið gengið niður og fóru þeir þá til síns heima.
Af þeim sem eftir urðu er það að segja að þegar Tryggvi bóndi fór til gegninga á laugardagsmorgni rakst hann liðið og bauð því til bæjar, sem var vel þegið. Þar höfðu menn síðan hina bestu vist, því húsráðendur veittu beina og gistingu af mikilli gestrisni og rausn. Á sunnudeginum var síðan farið að lífga við bíla og grafa þá upp úr snjónum og komu þeir allir til baka til Akureyrar á sunnudagskvöld.
Þrettándagleði var haldin á Réttartorfu 23. janúar. Um kvöldið var brenna og flugeldum skotið. Þá voru þar 10 manns á 7 bílum. Farið var heim á sunnudeginum.
Þorrablótið var haldið á Hveravöllum 13. febrúar. Á leiðinni var Blönduvirkjun skoðuð og var það afar fróðlegt. Alls voru 22 bílar í ferðinni og 42 þátttakendur, auk staðarhaldara. Voru þátttakendur allt frá Ólafsfirði austur í Mývatnssveit.
Stórferð með öðrum deildum af Norðurlandi var farin 5.-7. mars. Þáttakendur voru 109 á 54 bílum. Farið var á föstudegi í Nýjadal, á laugardegi í Setrið og heim um Hveravelli á sunnudag.
Jeppadagur var haldinn 20. mars. Lagt var af stað frá Leiru um kl. 10:30. Tveir bílar fóru nokkru áður til að leggja slóð og hita upp skálann. Leiðin lá inn að Réttartorfu og var farið frá Mýri og yfir Hrafnabjargavað. Færi var nokkuð þungt og áttu óbreyttir bílar í töluverðu basli og þurfti að draga suma töluvert. Allir komust þó á áfangastað, nema einn sem var farinn að þjást af slæmsku í kúplingu og var skilinn eftir á leiðinni inneftir. Hann var síðan dreginn niður á veg á bakaleiðinni og komst sjálfur heim.
Í ferðinni voru 22 bílar og 56 manns skráðu sig í gestabókina.