Þorrablótið 1998 var haldið 14.-15. febrúar á Hveravöllum. Þeir hörðustu fóru af stað á 5 bílum á föstudagskvöld og ætluðu að gista í Setrinu og koma þaðan á blótið. Þegar þeir komu upp í Bakkaselsbrekkuna var komið vitlaust veður og ferðin breyttist í björgunarleiðangur. Þarna rákust þeir á einn félaga okkar á fólksbíl og einn bíllinn lóðsaði hann heim, en hinir fóru að bjarga fólki úr föstum bílum niður af heiðinni og koma þeim í hendur á hjálparsveitum. Þeir unnu að þessu alla nóttina og komu dauðþreyttir til byggða um morguninn.
Aðrir höfðu ætlað að fara um 11 á laugardagsmorgni, en frestuðu förinni fram til 3 um daginn. Þá var komið skaplegt veður á Akureyri og var snjólaust og þokkalegt skyggni til aksturs upp að Bakkaselsbrekku. Þar var hvassviðri og skafrenningur svo varla sást á milli bíla. Vegurinn í brekkunni var illfær vegna skafla og bíla og urðu menn að aka að mestu utan vegar upp. Það tók um einn og hálfan til tvo tíma að koma öllum bílunum 16 upp brekkuna. Eftir það var snjólaust inn fyrir Seyðisá og veður að mestu skaplegt.
Þar tók við snjór, sem var fremur þungur til aksturs. Til Hveravalla var komið um 10 að kvöldi.
Þegar leið að kvöldi fóru undanfararnir frá kvöldinu áður að hressast aftur og þeystu af stað á þrem bílum, og hljómsveit deildarinnar á þeim fjórða. Þeir komu til Hveravalla um það leyti sem aðrir voru að vera búnir að borða, en það óhapp varð inn undir afleggjara að hljómsveitin ók á jarðfastan stein og laskaði bíl sinn.
Eftir matinn hófst söngur og gleðskapur og stóð fram undir morgun.
Um hádegi daginn eftir var brostið á grenjandi sólskin. Veðurskilyrðin má sjá á mynd sem Smári Sig tók. Þá var lagt af stað og fóru tveir bílar til byggða með þeim laskaða, en aðrir stefndu upp á Langjökul. Þeir sem lengst fóru óku suður að Þursaborg. Síðan var snúið við og menn óku til síns heima eftir skemmtilega ferð.