Skálinn

Síðan 1994 hefur deildin unnið að byggingu skála á Réttartorfu. Húsið var reist 1994 og gert fokhelt. Síðan tók nokkur ár að ljúka við að þilja, setja upp kyndingu, gaseldavél og innréttingar . Einnig var sett rennardi vatn inn í húsið. Mörg ár tók að ná þokkalega tryggu vatni, og er það enn vonarpeningur að vetri.
Snyrtihús (útikamar) bættist við 1997 og þar var seinna sett ljósavél.  2005 var byggð viðbygging, síðan var þar sett vatnsklósett, sem á að virka vetur sem sumar. 2011 var byggt við snyrtihúsið og ljósavélin færð þangað. Auk þess hafa verið byggðir sólpallar, göngubrú og stigi niður á bílastæði.
Í skálanum er svefnbálkur fyrir 4 og 20 dýnur á svefnlofti. GPS punktur fyrir skálann er 65°15,528´N og 17°18,656´W  (Heimild: Kortasjá LMI).

Réttartorfan er austan við Skjálfandafljót og eru um 10 – 20 km þangað frá syðstu bæjum í Bárðardal, Svartárkoti og Stórutungu.. Leiðin frá Stórutungu er lengri og er farin ýtuslóð gegnum Suðurárhraunið, að mestu meðfram fljótinu. Leiðin frá Svartárkoti er styttri og hraunið sandorpnara, en fara verður Suðurá á vaði.

Einnig má koma að skálanum sunnan frá af fjallvegi F910 (leiðin norðan við Trölladyngju) eða fara yfir Skjálfandafljót á Hrafnabjargavaði að haustlagi, þegar lítið er í fljótinu. Þeir sem hugsa sér að keyra yfir Skjálfandafljót á Hrafnabjargavaði ættu að skoða vatnshæðarmæli við Aldeyjarfoss.

Að vetri er hægt að fara á ís yfir fljótið.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.