Þorrablótið 1999

Þorrablótið 1999 var haldið á Hveravöllum 13. febrúar.  Fjórir bílar fóru á föstudagskvöldið og gekk ferð þeirra vel, ólíkt því sem var í fyrra.  Upp úr 11 lögðu síðan flestir hinna af stað frá Akureyri og var stoppað í Varmahlíð og svo aftur í Blönduvirkjun, þar sem okkur var sýnd virkjunin og var það afar fróðlegt.
Seinna um daginn kom svo einn bíll frá Akureyri og um kvöldið einn félagi, sem staddur var í Reykjavík og ók norður Kjalveg.  Alls voru 22 bílar í ferðinni og 42 þátttakendur, auk staðarhaldara.  Voru þátttakendur allt frá Ólafsfirði austur í Mývatnssveit.
Matur var mikill og góður frá Kjötiðnaðarstöðinni og skipulögð dagskrá með söng og skemmtiatriðum og varð af þessu hin mesta skemmtun.  Myndir eru hér neðar á síðunni.Meðal skemmtiatriða var ágætt kvæði eftir Hjördísi Pétursdóttur:

Frá sjónarhóli eiginkonu jeppakarls

Er hausta fer um heiðar allar
heldur kætast jeppakarlar,
upp til fjalla augum gjóa
ætli fari ekki að snjóa.
Og þegar snjórinn fyrsti fellur,
fara að blómgast jeppadellur.
Ólman fákinn út þá draga
ýmislegt nú þarf að laga.
Kringum bílinn stoltir stappa,
strjúka, þukla, líka að klappa,
sparka í dekkin, spíta í lófa,
spegúlera, líka að prófa,
bensínið í botn að stíga
brosa í kampinn, líka að míga.
Síðan upp í bílinn brölta
búa sig af stað að skölta.
_________

Ástand bíla alltaf er að breytast
eigendurnir stöðugt við það leitast,
að auka, bæta, breikka þá og stækka
og bensín reikningarnir sífellt hækka.
Undir Jörundi alltaf tækið stækkar,
svo Edda stynur— þá er bíllinn hækkar.
Ari er líka eitthvað farinn að þrútna
og ýmsir fleiri byrjaðir að tútna.
Siddi á enn við sama vanda að stríða,
svei mér ef hann þarf ekki að fara heim að—-
horfa á leikinn hjá K.A. klukkan 4.
Hann rekur fólk á fætur fyrir allar aldir
ef frestur yrði á brottför, þá væru hans dagar taldir.
_________

 

En nú skal verða sprett úr spori
spyrni hver nú sem hann þori.
Þjóta út um holt og hóla
helst má bíllinn ekki spóla,
flengjast yfir fannarbreiður
fyrir húddi kafli greiður.
Taka viðbragð teygja lopann
teiga drjúgum bensín sopann,
láta gamminn geisa af afli ,
grafa sig fastan í næsta skafli.
Loft úr dekkjum láta flakka
líka þæfa, troða og hjakka,
ef ekkert þokast á þennan hátt
þá verð ég að fá mér drátt,
og eftir drætti æði hröðum,
allir karlar bíða í röðum.

En skjótt í lofti skipast veður
ský upp hrannast, sólin kveður,
brestur á með byljum hörðum,
byrgir sýn að öllum vörðum.
Ekkert nema iðu hvíta
út um gluggann má nú líta,
ég get ei séð þar glóru neina,
nú garmurinn er vonin eina.
Endalaust svo áfram rúntum
eftir þessum lóran punktum.
Útsýnið samt alltaf fílum
afturljós á næstu bílum.

Eftir strangann akstur, þó endum við í skála,
ósköp er þá notalegt, við bjórdósina að rjála,
láta þennan eðaldrykk ofan í sig streyma,
áhrifin að finna, dagsins raunum gleyma.
Svona líður nóttin, við sukk í fjallakofa,
síðan undir morgun, þá fara menn að sofa..
Svefnhljóð heyrast skrítin, í sinni margra er þoka,
og sumir reyna að pissa, í gamlann ruslapoka.
En aftur fljótt er risið, og augum depplað rauðum,
andskoti er líkt þeir séu að rísa upp frá dauðum.
Það á að halda í bæinn og óbyggðirnar kveðja,
þar eiginkonan bíður,—-um það skaltu ekki veðja.

 

 

Hér eru nokkrar myndir sem Smári Sig tók á þorrablótinu
Ari fyrir kl 24:00 Láki með flugu í höfðinu
Hlustið! Kúreki til fjalla
Gisli, Villi o.fl Maltlaus

Á sunnudeginum var síðan ekið sömu leið heim, enda útsýni lítið og nokkur renningur.