2002-2003

Ferðir inn á Réttartorfu í júní
Farin var vinnuferð 8. júní. Gert var við girðinguna og vatnsleiðslan lagfærð.
Önnur vinnuferð var farin 29. júní. Farið var með sáningarvél og sáð í svæði innan og utan girðingar. Einnig var borið á innan girðingar og rofabörð stungin niður.
Samkvæmt starfsáætlun sumarsins átti að vera með þá nýbreytni að hafa fjölskylduhelgi á Réttartorfu helgina 29. – 30. júní. Tveir bílar fóru inn eftir á föstudagskvöldinu og þrír á laugardeginum (og tveir þeirra fljótlega aftur heim). Ekkert varð hins vegar úr skipulagðri dagskrá, nema að sumir fóru að aðstoða umhverfisnefndina.
Nokkru seinna fór formaður umhverfisnefndar við annan mann inneftir og setti niður 250 birkiplöntur í og við torfuna.

Félagsfundur 4. júní 2002
Páll Brynjar Pálsson, frá Bílaklúbbi Akureyrar, kom á fundinn og fjallaði um “BÍLADAGA” sem verða helgina 14. – 17.júní. Þeir byrja með götuspyrnu á laugardeginum , ökuleikni á sunndeginum og síðan bílasýningu á mánudeginum 17.júní og var hann að leita eftir þátttöku hjá félagsmönnum í 4 x 4 með að sýna sem flesta bíla frá okkur. Einhverjir skráðu sig á blað á fundinum og svo átti að hringja í fleiri. Einnig er meiningin að vera með sjónvarp og myndbandstæki í Oddeyrarskóla á mánudeginum og sýna þar frá
götuspyrnum og jafnvel vetraferðum frá okkar hópi.
Fjölskylduferð Eyjafjarðardeildar í Réttarforfu verður farin laugardaginn 29.júní. Lagt verður af stað frá Leirunesti kl:14.00. Talað hefur verið við formann Húsavíkurdeildar um að samstarf geti orðið með þessa hátíð hjá deildunum.
Frá umhverfisnefnd: Fyrirhuguð er ferð í Rétttartorfu 8.júní. Laga á girðingar í þessari ferð. Einnig er áætlað að fara 28.júní í Réttartorfu til að dreifa fræjum og áburði á það svæði. Ferð 28.september til að ganga frá
griðingum fyrir veturinn svo “Klippumennirnir” mæti ekki aftur með vopn sín.
Fjölskylduhátíð 4×4 sem verður helgina 19. – 21. júlí, þetta árið haldin rétt hjá Flúðum, brottför verður kl: 19.00 frá Olís suður Kjöl, vonumst til að sem flestir fari á þessa hátið.
Sigurkarl sýndi myndband um ferð sem var farin úr Laugavalladal -Grágæsadal – Hveragil og til baka í gegnum Dimmugljúfur.
Umræða var síðan um ferðina og ýmislegt annað í lokin. – Fundi slitið.
17 mættir á fundinn.
Ritari

Vinnuferð á Réttartorfu
Farin var vinnuferð á Réttartorfu um helgina. Farið var inneftir á föstudagskvöld (30. ágúst) undir forustu Óskars (Óskar fór líka viku áður og lagfærði dælinguna upp á dagtankinn.) og gist með gangnamönnum Bárðdæla. Daginn eftir var unnið smávegis við glugga og að uppsetningu stiga upp á Torfuna, en aðalverkefnið var að lagfæra vatnsleiðsluna.
Leiðslan var færð upp úr gilinu og endurnýjuð að mestu, enda komin göt á rúmlega 20 stöðum eftir síðasta vetur. Settur var upp vírstrengur frá horninu á Torfunni og yfir Grófina og leiðslan hengd á hann. Krani var settur á leiðsluna við hornið á snyrtihúsinu og leiðaslan framlengd út í lækinn. Vonir standa til að hægt verði að ná í vatn úr krananum í vetur.
Siddi sá síðan um að grilla og þegar menn höfðu náð sér eftir átið var haldið heim. Þátttakendur í ferðinni voru 5.
Smellið hér til að skoða myndir úr ferðinni.

FÉLAGSFUNDUR 3.SEPTEMBER 2002
Vel var mætt á þennan fund alls 25.manns og greinilegt að menn voru komnir í þörf að hittast og spjalla eftir sumarið.
Frá Landgræðslunefnd:
Búið er að fara tvær formlegar ferðir í Réttartorfu í sumar á vegum nefndarinnar. Í þeim ferðum var girðingin löguð, sáð og borið á. Einnig voru um 250 birkihríslum plantað og er nú þegar farin að sjást breyting á landinu innan girðingar.
Fara á 28.September í Réttartorfu til að laga girðingar fyrir veturinn.Við minnum á að alltaf er hægt að finna sér verkefni ef einhverjir sjá sér fært að koma þessa helgi.
Frá Vatnahjallanefnd:
Haldinn var fundur í sumar til að ýta þessu af stað – frekar lítið hefur gerst en þó er búið að gera kostnaðaráætlun um veginn frá Hólsgerði og upp á Hafradal. Búið er að tala við landeigendur og vegagerðina, allt samþykkt. Vonast er til að hægt verði að fá pening úr Ríkissjóði til að byggja þennan veg upp.
Frá Ferðanefnd:
Septemberferðin – sú ferðaáætlun kynnt mjög ítarlega. Betri kynningarfundur verður haldin á fundarstað félagsmanna mánudagskvöldið 9.september kl: 20.00. Skráningarblað var látið liggja fyrir í kaffihléi fundarins og skráðu sig 13 bílstjórar + 10 farþegar = 23 ákveðnir í að fara þessa ferð.
Októberferðin – Hveragil, kynning á henni síðar.
Nóvemberferðin – óákveðin.
Frá Skemmtinefnd:
Þeir vilja hafa Þorrablótið í svipuðum dúr og síðast – í byggð. Þrettándagleðin er óákveðin. Bjórkvöldið verður tekið betur til athugunar kanski fellt niður eða gerðar verulegar breytingar þar á.
Frá Skálanefnd:
Farið var í Réttartorfu og þar lagaðar áfyllingar á skálann og rafstöðina. Borið var á skálann og lagað var eitt og annað. Sett var ný vatnsleiðsla í skálann þannig að nú er hægt að skrúfa frá krana í skálanum og er alltaf sírennsli í þessari slöngu. Þarf að laga betur fyrir veturinn svo ekki frjósi í henni. Einnig þarf eitthvað að laga snyrtiaðstöðuna. Síðan er það eldarvélarmálið – gott væri að fara að taka loka ákvörðun í því svo hægt væri að
vinda sér í að koma góðri eldavél fyrir sem fyrst í skálann.
Anton hafði samband við Tryggva í Svartárkoti um lagfæringar á vegi þaðan og í Réttartorfu. Hann var mjög hlynntur því að laga þessa leið og var hann viss um að fleiri væru það – gott mál.
Eftir kaffihlé var horft á ferðamyndir svona til að hita upp fyrir komandi vetur.
Fundi slitið kl:23.
Ritari.

Septemberferð á Vatnajökul
17 bílar frá Eyjafjarðardeild og 2 frá Húsavíkurdeild (38 manns) fóru í ferð 13. – 15. september. Farið var austur í Snæfellsskála á föstudagskvöldi og gist þar. Veður var gott en mikið mistur fyrir austan. Gekk ferðin vel en einhverjir fóru smávegis afvega þegar þeir komu að vinnubúðum sem búið var að setja niður á krossgötum.
Á laugardagsmorgni var farið inn að Brúarjökli og upp á hann þar sem hæst bar og þaðan austur á Goðahnjúka. Færi var all gott og skyggni nokkuð, en þegar austar kom sást ekkert fyrir þoku og sáu menn ekkert þar nema snjó og skálann. Var nú snúið aftur til baka og komst leiðangurinn aftur niður úr þokunni í bili.
Næst var stefnan tekin á Breiðubungu og síðan niður á Skálafellsjökul. Er skemmst frá því að segja að alla leið var ekið í þoku og engu skyggni. Þegar niður á Skálafellsjökul kom létti aðeins til og sást ofan í Kálfafellsdal frá tveim útsýnisstöðum, en ekki langt, því þokan fyllti dalinn þar neðra.
Áfram var haldið niður að Jöklaseli og þar fengu menn sér hressingu og réðu ráðum sínum. Sumir fóru aftur upp á jökul en flestir fóru niður í Suðursveit og upp aftur og var alls staðar sama þokan. Á leiðinni upp lyftist hún aðeins og kom þá í ljós hversu hrikaleg leið þetta var sem við höfðum verið að aka.
Um kvöldið var grillað og farið snemma að sofa, enda sögð góð spá fyrir morgundaginn.
Á sunnudagsmorgninum var þokan enn niðri en uppi í Jöklaseli og uppi á Jökli var glampandi sólskin og þeystu menn á jökul um kl. 8. Nú sást alveg niður í botn á Kálfafellsdal og tekinn var krókur til að líta betur á Esjufjöllin. Færi var gott og var nú ákveðið að athuga hvort hægt væri að komast á Öræfajökul. Fljótlega fór
þó færið að þyngjast og var fljótlega orðið mjög þungt. Einn bíll affelgaði og annar var með aukahljóð í skiftingu og þótti ekki ráðlegt halda áfram með þá áætlun. Nú var stefnan því tekin á Grímsvötn og ekið þangað í glampandi sólskini og frábæru útsýni í færi sem var mun léttara, en með mörgum hraðahindrunum.
Á Eystri Svíahnjúk var tekið gott stopp, menn fengu sér hressingu og skoðuðu skála og íshelli í nágrenninu og gægðust fram af brúninni ofan í Vötnin. Síðan var farið yfir á Vestari Svíahnjúk og hugað að ummerkjum eftir síðasta gos.
Stefnan var nú tekin yfir á Köldukvíslarjökul og var hugmyndin að fara fram á Hamarinn, en þá mættum við aftur þokunni. Því var hætt við það og ákveðið að fara skemmstu leið niður í Vonarskarð. Fljótlega fór að grilla í sprungur í snjónum gegnum þokuna og þurfti að krækja fyrir þær og laumast yfir þar sem fært þótti. Einn bíll missti afturendann niður þegar hann var að mjaka sér yfir sprungu og var kippt upp snarlega, annars
gekk allt vel sem ég sá til.
Þegar niður kom var gott veður og skyggni og í ljós kom að þokan voru ský sem lágu á fjallatoppum.
Nú var ekið norður Vonarskarð og síðan Gæsavatnaleið vestur í Tómasarhaga. Við vegamótin við Fjórðungsvatn kvöddu Húsvíkingar og fóru norður í Bárðardal en Eyfirðingar óku Eyjafjarðardal.
Myndir úr ferðinni eru hér.

Neyðarskýlið á Réttartorfu
12. september síðastlinnn komu 5 uppgefnir Hollendingar í skálann á Réttartorfu og urðu mjög fegnir að komast þangað, töldu jafnvel að það hefði bjargað lífi þeirra að komast í svo gott hús. Fólk þetta, 2 karlar og 3 konur, höfðu farið suður með Fljóti á óbreyttum jeppa á sléttum dekkjum og lent inn á Laufrandarleið, viljandi eða óviljandi. Þau höfðu síðan farið öfugu megin við hólmann á vaðinu í Laufröndinni og fest bíl sinn þar. Tókst þeim ekki að losa hann og tóku þann kost að ganga til byggða. Höfðu þau með sér svefnpoka og nesti og gengu bílaslóðina til baka. Þurftu þau að sofa úti tvær nætur áður en þau komu niður á Torfu.
Á Torfunni skiptu þau liði og tveir þeir sprækustu gengu niður að Stórutungu og hitu þar á Pál í Víðikeri sem flutti hópinn niður að Fosshóli. Páll og Tryggvi í Svartárkoti fóru síðan inn eftir og björguðu bílnum eftir smá bras, m.a. vegna þess að hann var orðinn straumlaus, og færðu þeim hann niður að Fosshóli.
Enginn sími er í skálanum, en hins vegar VHF-stöð. Er kannski þörf á að setja upp leiðbeiningar á erlendum tungum þar í efra um hvernig á að kalla á hjálp í stöðinni og hafa þar nokkra svefnpoka (eru 2 núna) og neyðarfæði?
Full þörf er að merkja vel slóðamótin þar sem annars vegar er farið suður Laufrandarleið og hins vegar þar sem farið er yfir á Trölladyngjuleiðina (hina nýju „Gæsavatnaleið“ vegagerðarinnar). Víst er að veðurblíðan þessa daga hefur bjargað því að ekki fór hér miklu verr.

Vinnuferðir 20.-22. og 27.-28. september
20.-22. september var vatnsleiðslan grafin niður frá lindinni og upp úr gilinu. Einnig var unnið við snyrtihús að utan.
27.-28. september var sett upp ný gaseldavél með fjórum hellum og bakarofni. Einnig var lokið við gerð stiga af pallinum niður í hvamminn og hluti af vatnsleiðslunni grafinn niður. Er nú aðeins eftir að jarða um 150m af henni.

Helgin 5.-6. okt
Ferðin í Laugafell féll niður vegna þátttökuleysis.
Vinnuferð var farin sunnudaginn 6. okt. Lokið var við að jarða vatnsleiðsluna og ganga frá girðingunni undir veturinn.
Leitað var að jarðhita við Hafurstaðahlíð án árangurs og settar niður stikur á leiðina frá Sprengisandsleið niður að vaði og leiðinni breytt að hluta til.

FÉLAGSFUNDUR 4X4 EYJAFJARÐARDEILD 1.OKTÓBER 2002
Landsfundurinn sem verður í Setrinu helgina 11-13.október þar þurfum við að koma á framfæri umræðu um Vatnahjallaveg og einnig vegabætur í Réttartorfu. Einnig er spurning um breytingu á skipulagi deilda á landsvísu t.d. einhverskonar “Landsstjórn” og að þar verði fulltrúar úr deildum landsbyggðarinnar. Gott væri að vita hvort allir landsmenn sem eru félagagar í 4×4 séu með athvæðisrétt á Landsfundi og geta farið í stjórn í Reykjavík.
Áætlað er að setja upp endurvarpa á Vaðlaheiði v/VHF-talstöðva og spunnust nokkrar umræður um það hver ætli sjái um þann kostnað ?
Lykamál í Setrinu = Lyklar verða hjá formanni og hægt er að kaupa sér lykil eða fá hann leigðan (endurgreiðsla þegar lyklinum er skilað).
Frá Skálanefnd: Óskar tjáði sig mjög lítið um síðustu ferð í Réttartorfu – menn og konur verða bara að koma og sjá hvað er búið að gera þar!
Frá Ferðanefnd: Sigurkarl sagði frá fyrirhugaðri Nóvemberferð sem verður farin helgina 8-10.nóvember, lagt verður af stað frá Leirunesti kl:19.00 á föstudagskvöldið og stefnan tekin fyrst annað hvort á Möðrudal eða Herðubreiðarlindir síðan í Hveragil og koma svo heim norðan við Dyngjufjöll og niður í Mývatnssveit.
Rætt var um vegabætur í Réttartorfu frá Stórutungu til að fleiri geti notað skálann og var verið að tala um kostnað ca.350.000,- en engin niðurstaða fundin á þessu máli enn sem komið er.
Kristinn Leifsson kom frá Olís og var með kynningu og fyrirlestur um smurolíur. Ýmsar spurningar komu frá fundarmönnum og spunnust skemmtilegar umræður í kring um þær. Við þökkum Kristni kærlega fyrir komuna og Olís fyrir okkur.
Síðan var horft á myndband frá síðustu ferð á Vatnajölul.
Fundi slitið rétt fyrir miðnætti.
Á fundinn mættu 31.
Ritari.

Jarðhitaleit ber árangur
Jóhann Björgvinsson og Jón Gunnar Snorrason fóru helgina 12. – 13. október og leituðu að jarðhita á Hafursstaðaeyrum. Þeir fundu 4 lindir með heitu vatni rétt norðan við mynni Sandmúladals (N 65°12,478 V 17°19,854 Hjörsey).
Hitastigið var 10°C, 19°C og tvær með 28°C. Rennsli var misjafnt, mest úr 10°C lindinni og nær ekkert úr annari 28°C lindinni. Ekki mun vera verulegt rennsli úr heitari lindunum og verða þær ekki nýttar til hitaveitu á Réttartorfu, en e.t.v. mætti gera þarna smá heitan pott.
Einnig leituðu þeir félagar að jarðhita inni á Sandmúladal en fundu ekki í þetta sinn.

Nýr fundarstaður
Fundir hafa síðustu ár verið í húsnæði því sem Björgunarsveitin Súlur hafði í Lundi, en þegar hún flutti niður á Eyri í ársbyrjun þurftum við að fá inni annars staðar. Nú eru þeir Björgunarsveitarmenn búnir að innrétta lítinn fundarsal og hefur aftur verið leitað til þeirra. Félagsfundir verða því haldnir framvegis í húsnæði Súlna við Hjalteyrargötu 12 á Akureyri.

Nóvemberferðin
Helgina 8. – 10. nóvember var farin ferð í Hveragil austan við Kverkfjöll. Fimm bílar lögðu af stað frá Leirunni kl. 20 austur í Möðrudal og voru komnir þar um 22 og gistu í kjallaranum hjá Villa. Sá sjötti kom um hálf eitt og þeir félagar gistu í „Torfbænum“.
Um hálf níu á laugardagmorgni komu síðan tveir bílar til viðbótar frá Akureyri og þá var lagt af stað. Veður var bjart, frost um 2°C og sást til sólar með köflum þegar kom fram á daginn.
Snjór var lítill til að byrja með og Þríhyrningsáin opin, en farið var yfir hana á góðum stað nokkru ofan við vaðið á veginum. Álftadalsáin var svo lögð og færi gott í Krepputungunni. Þegar kom inn að vegamótunum við Upptyppinga fór helmingur leiðangursins að kíkja á ættartré Völsunga en hinir héldu áfram til að athuga með Lindaána, sem hafði verið ófær vegna kraps nokkru áður. Það var nú allt horfið og ekkert mál að fara yfir hana.
Hópurinn sameinaðist nú aftur og var síðan haldið inn fyrir Hvannalindirnar og síðan inn með Kreppu. Þegar inn fyrir Lindirnar kom var snjór orðinn mun meiri og á köflum talsvert erfiður á leiðinni inn að Hveragilinu.
Þar fóru menn niður og tóku sumir sér bað í læknum en aðrir ekki. Síðan var farin sama leið til baka, gegnum Kverkhnjúkaskarðið og inn í Sigurðarskála.
Um kvöldið var grillveisla og síðan var farið snemma að sofa og á fætur um hálf níu. Veður var þannig að vindur var hægur en dimmt með köflum, þó án þess að éljaði, og birti svo vel til á milli. Hiti var nálægt frostmarki.
Einn bíllinn var nú kominn með einhverja slæmsku í sjálfskiptinguna, virkaði hún stundum og stundum ekki, og var því horfið frá áætluninni um að fara vestur yfir Jökulsá og norður Dyngjufjalladal og ákveðið að fara sömu leið niður á veg í Möðrudal. Ekki var búið að fara nema nokkra kílómetra þegar framhjólalega fór í öðrum bíl og í leiðinni eyðilagði hún stútinn sem hún er á, svo legur sem voru með í för dugðu ekki til.
Voru nú góð ráð dýr og var hópnum nú skipt í þrennt, þrír urðu eftir hjá þeim „þrífætta“, tveir fóru með þeim sem var með bilaða sjálfskiptingu og aðrir tveir flýttu sér niður að Möðrudal til að sækja varahluti, sem voru á leiðnni austur. Um kl. 18 var búið að gera við og sá slasaði orðinn ferðafær, að vísu aðeins á afturdrifinu, og gekk ferðin niður eins og í sögu enda þótt veður hefði versnað, hvesst og kominn skafrenningur og þegar norðar kom líka ofankoma. Heim var svo komið rétt fyrir miðnættið.
Af hinum er það að segja að í Hvannalindum gafst sjálfskiptingin endanlega upp og var sá bíll síðan dreginn til Akureyrar og voru þeir félagar komnir heim milli 18 og 19.

Myndir úr nóvemberferðinni
Benedikt Sigurgeirsson hefur sent okkur nokkrar myndir úr nóvemberferðinni.
Halldór Jónsson hefur einnig verið svo vinsamlegur að senda inn myndir úr nóvemberferðinni, þetta eru fleiri myndir en komu frá Benedikt og segja sögu ferðarinnar býsna vel. Umsjónarmaður þakkar þeim Benedikt og Halldóri kærlega þessa sendingu.

Nóvemberfundur.
Vorum á nýjum fundarstað í sal Björgunarsveitarinnar Súlur v/Hjalteyrargötu.
Anton sagðist ekki ætla að fara yfir Landsfundinn í heild sinni, sem var í Setrinu 12.október s.l. vegna þess að honum hafi verið gerð góð skil í fréttabréfi okkar – Setrinu. Að vísu er Landsfundur ekki til í lögum félagsins og hefur ekkert lagalegt gildi. En þó nokkur atriði t.d. 25% af okkar félagsgjaldi fara suður. Póstburðargjöld hafa hækkað þannig að óvíst er um útgáfu fréttablaðsins Seturs en flestir voru þó á því að dreifa því áfram.
Mikið var rætt um aksturslag þessara ökutækja “jeppa” í almennri umferð og eru allir beðnir að athuga það vel.
Eddi var með erindi um VHF og verður næsti sendir að öllum líkindum settur upp á Vaðlaheiði. Athuga á um styrki til að kosta uppsetningu á því. Anton opnaði umræðu um að breyta Landsfundi til að hafa meira gildi fyrir félagið á landsvísu. T.d. um að mynda regnhlífasamtök – en einnig væru gallar þar, menn hittast minna o.s.frv.
Frá Ferðanefnd: Sigurkarl kynnti næstu ferð – Nóvemberferð. Brottför boðuð frá Leirunesti, föstudagskvöldið
8.nóv. kl.20:00 og stefnan tekin fyrst á Möðrudal.
Talað var um lyklamál af Setrinu, lyklar verða hjá formanni og hægt er að kaupa sér lykil sem mun kosta 5.000,- eða fá hann leigðann (endurgreiðsla þegar honum er skilað.)
Gestur kvöldsins var Bjarni Már Júlíusson og var hann með kynningu frá Landsvirkjun, hann er stöðvarstjóri í Kröflu og Laxárvirkjun. Voru miklar umræður um virkjanarmál á öllu landinu en þó mest á norðausturlandi.
Fundi slitið um kl:23 og á fundinn mættu 31.
Ég ,undirrituð, segi af mér nú sem ritari 4×4 deildarinnar í Eyjafirði og tekur Haukur Stefánsson við þessu starfi. Vil ég að lokum þakka kærlega fyrir mig.
Halla Jensdóttir ritari.
Halla og Haukur
Halla og Haukur

JÓLAFUNDUR 4 X 4 03.12.02
Formaður setti fundinn og bauð gesti velkomna, sérstaklega þá sem voru með kynningu þetta kvöld. Mættur var Ásgeir Rúnarsson frá Aukaraf í Reykjavík auk tveggja fulltrúa frá Sjóbúðinni á Akureyri.
Ásgeir kynnti alla þá hluti ( aukahluti) sem hann hafði með sér að sunnan eða voru til hjá Sjóbúðinni – lýsti þessu öllu og fór mikinn.
Mjög fjörugar umræður urðu og þá sérstaklega um kosti GPS tækjanna.
Áfram var haldið með kynningu eftir kaffið.
Næsti fundur verður 7.jan. og þá mætir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur á fundinn og heldur tölu.
Ritari

Eldiviðarferð á Réttartorfu
Föstudagskvöldið 27. desember fóru fjórir bílar undir forustu Óskars Jónssonar inn á Réttartorfu og höfðu þeir meðferðis eldsmat í brennunna 11. janúar. Einnig voru þeir með tvöfaldann stálvask sem þeir settu upp á laugardaginn.
Á laugardagmorgun fóru síðan 9 bílar inneftir, sumir með eitthvert brennuefni. Farið var frá Stórutungu því kvöldið áður hafði Fljótið verið erfitt, háar skarir og ísrek. Má heita að allt sé gersamlega snjólaust, þó eru svell eða smá hjarn á stöku stað. Ísinn á vaðinu á Sandá hélt ekki en hægt var að fara yfir nokkru neðar án nokkurra erfiðleika.
Á Réttartorfu er allt eins og vera ber, nema að frosið hefur í vatnsleiðslunni. Einhver hefur dregið hana upp úr læknum og norður á barðið og hefur eflaust frosið fyrir opið þar einhvern tímann í vetur.
Eftir að menn höfðu fengið sér hressingu fór Jói Björgvins og sýndi volgar lindir sem hann hafði nýlega fundið. Þær eru á línu sem er um 200m að lengd og er hiti 20 – 30°C. Heitasta lindin komst úr 29°C upp í 31°C þegar búið var að hræra svlítið í henni, en rennslið er lítið.
Eftir þetta var kíkt aðeins inn í Sandmúladalinn en síðan snúið til baka og farið fljótlega af stað heim. Farin var Svartárkotsleið og var Suðuráin auð eins og á sumardegi.

Þrettándagleði Eyjafjarðardeildar var haldin 11. janúar. Þrír bílar fóru um morguninn upp úr Eyjafjarðardal ásamt nokkrum fleirum. Í sneiðingunum upp úr dalnum var svellbunki sem þeir sandbáru eftir að fyrsta bíl tókst að forða sér af honum styttstu leið niður. Þegar upp var komið var slétt og gott færi og fóru þeir í Laugafell og síðan norður Sprengisandsleið niður í Bárðardal.
Aðrir týndust inn eftir fram eftir degi frá Svartárkoti og hlóðu brennu og fóru smá ferðir út frá skálanum, m.a. hélt Jói Björvins jarðhitaleitinni áfram.
Þegar þeir sem fóru lengri leiðina komu niður að Hrafnabjargavaði reyndu þeir við Fljótið, en í miðri vestari kvíslinni var opinn áll og fór einn bíllinn niður í hann og reyndi að komast upp úr að austan án árangurs. Einn bíll kom þeim til aðstoðar frá skálanum, en þegar hann var að fara yfir eystri kvíslina brotnaði ísinn undan
honum og stóð hann á endann fram af skörinni með vatn upp á frambrún á húddinu uns fleiri félagar komu frá Torfunni og drógu hann upp.
Af þeim vestanmönnum var það að segja að bílnum í álnum tókst að snúa við og náðu þeir honum upp á vesturbakkann eftir töluvert bras, m.a. höfðu þá tveir bílstjóranna dottið í vatnið sem var mittis djúpt. Þeir fóru síðan heim til Akureyrar með bílin sem var í vatninu, enda var hann nokkuð tjónaður.
Sá sem enn var þurr fór hins vegar inn á Torfu ásamt Villa í Möðrudal. Þegar þeir voru komnir var fljótlega farið að kveikja í brennunni og skjóta nokkrum flugeldum. Á eftir var spilað og sungið fram á nótt. Venjulega hafa þeir Tryggvi í Svartárkoti og Jónas á Lundarbrekku spilað fyrir okkur á harmonikur, en í ár bættist þeim liðsauki, því Dalvíkingar mættu með tvær nikkur til viðbótar og Ásgeir Bragason kom með gítarinn sinn.
Daginn eftir vöknuðu menn mis snemma og fóru heim.
11 bílar voru innfrá í ár og 17 manns.

Þorrablótið 2003 fór fram 15. febrúar 2003 í Selinu á Skútustöðum undir styrkri stjórn Guðmundar skemmtinefndarformanns.
Sumir komu á föstudagskvöldi en aðrir á laugardeginum og um kvöldið voru 32 við borðhaldið. Dagskrá laugardagsins hófst með kvennaskóla undir stjórn Halldórs Jónssonar. Hann fór í ferð með konurnar inn fyrir Hverfjall og lét þær æfa sig í brekkum þar. Á meðan hafði Smári sig GPS námskeið fyrir karlana.
Eftir námskeiðin hófst gokart keppni og lauk henni með því að báðir bílarnir voru orðnir óökufærir og síðasti maður var borinn í mark á bíl sínum.
Næst voru veitingar í snjóhúsi, sem þakið vantaði á og síðan fór meirihluti karlanna í jarðgufubaðíð í Jarðbaðshólum en konur flestar í heita pottinn við hótelið. Sumir settust bara og horfðu á sjónvarpið.
Klukkan 8 hófst borðhald sem var hið ánægjulegasta, sumir hegðuðu sér að vísu mjðg óvenjulega, lofuðu Patrol og höfðu áhyggjur af snjókomu.
Sú breyting var frá boðaðri dagskrá að FlatAri og Tómas létu ekki sjá sig og var því ekki stiklað á stóru, en söngur var nokkur og gítarspil framið af Ásgeiri Bragasyni.
Með því að smella hér er hægt að sjá nokkrar myndir teknar um kvöldið.

Myndir frá þorrablótinu.
Mundi sendi inn nokkrar myndir frá þorrablótinu í febrúar.
Halldór Jónsson sendi inn myndir frá þorrablótinu. Aðallega eru þetta myndir sem teknar eru í tímum í kvennaskólanum, en engar slíkar hafa áður sést hér hjá okkur. Smellið hér til að líta á þesar myndir. Má nú segja að að aðeins vanti myndir frá GPS námskeiðinu hjá Smára til að öllum atburðum hafi verið gerð nokkur skil á myndum.

Febrúarferðin 7. – 9. febrúar 2003
Farið var inn á Hveravelli á föstudagskvöldi. Upphækkaði vegurinn á Auðkúluheiðinni var snjólaus að mestu, dálítill skafl var þó á Kolkustíflunni, eins og svo oft áður, og urðu flestir að fara að hleypa úr þar. Vindur var hægur og stjörnubjart. Þegar inn fyrir Seyðisá kom var komið í annan heim, dimm él og töluverðan snjó. Á leiðinni þaðan inn á Hveravelli gekk mishratt hjá mönnum, sumir fóru svolítið afvega, aðrir affelguðu og sumir
þurftu marga drætti. Allir voru þó komnir í hús upp úr 1 og þá var snarlega farið að sofa.
Morguninn eftir var lífinu tekið rólega, enda var búið að breyta ferðaáætluninni vegna veðurs og færðar, í stað þess að fara á Langjökul lá leiðin nú norðan Hofsjökuls í Laugafell. Þótt við færum seint af stað var samt ekkert lífsmark með Sunnanmönnunum í hinum skálanum, en þeir komu einhvern tíman um nóttina, sennilega undir morgun.
Þungt var yfir og gekk á með dimmum éljum, en þegar kom austur með Hofsjökli glaðnaði til og var glaða sólskin með köflum. Færðin á Kili var þung og erfið, en þegar austar dró minnkaði snjór og grjót jókst svo að verulegur bagi varð að. Ingólfur Gísla rak klafa í jarðfastan stein og gekk hjólið við það aftur og var nartandi í brettið það sem eftir var ferðar.
Þegar í Laugafell kom var farið í bað og eldað og spjallað og að lokum sofið á loftinu yfir búningsklefunum, en hópur frá Reykjavík var í aðalhúsinu.
Daginn eftir var sólskin með köflum og skafrenningur. Farið var niður í Skagafjörð um sneiðingana ofan við Þorljótsstaði í Vesturdal. Þegar þar var komið hafði slasaði klafinn náð að nudda gat á olíupönnuna hjá Ingólfi, en trétappi úr næsta girðingarstaur bjargaði því við og hann ók til Akureyrar, en hámarkshraðinn var 50 – 60 á malbikinu, og höfðu sumir á orði að þeir hefðu aldrei keyrt svona hægt milli Varmahlíðar og Akureyrar.
Fáeinar myndir úr ferðinni eru hér.

Fjölskyldudagurinn var haldinn laugardaginn 5. apríl. Brottför var frá Olís kl. 11:00 og haldið út á Ólafsfjörð. Farið var áfram upp á Lágheiði og var þar nú sýnu minni snjór en í fyrra og gras upp úr þar sem verið var að keyra þá.
Brugðið var á það ráð að fara nú út af veginum við neyðarskýlið og þar til austurs og upp á afdali og þar uppi fannst nægur snjór. Brekkur voru hins vegar brattar og gekk ólæstum bílum erfiðlega í þeim.
Tekið var kakóstopp og fólk renndi sér á slöngum, sleðum og snjóbrettum og nokkrir reyndu með sér í brekkuklifri á bílum. Síðan fór helmingur hópsins heim en hinir fóru lengra upp á dalinn og klifruðu meira.
Í ferðinni voru 9 bílar og 20 manns, allt félagsmenn og þeirra fólk.
Myndir úr ferðinni eru hér.

Bjórkvöld var haldið í Straumrásarhúsinu 2. maí. Rúmlega 20 manns komu og ræddu um jeppa og sögðu ferðasögur meðan kverkarnar voru vættar aðeins og myndaalbúmin skoðuð.