2000-2001

Síðast liðið sumar voru farnar tvær ferðir til að bera á Torfuna og nokkra staði í næsta nágrenni.  Einnig var unnið við snyrtihús, og var Villi Reynis þar aðallega að verki.  Húsið hefur nú verið einangrað, panelklætt og settur gólfdúkur, sams konar og er í húsinu.  Einnig hefur verið komið fyrir rafstöð í húsinu og rafleiðslur lagðar þaðan inn í húsið.  Sett var upp rafmagnsdæla til að dæla upp á dagtankinn og er henni stjórnað úr snyrtihúsinu.
Settur var upp brunnur í Grófinni og vatnslögn sett upp á Torfu, en vatnið í henni er lítið skárra en í læknum sjálfum (rauðamýri í vatninu).

Fyrsti fundur haustsins var haldinn 5. september.  Þar greindu nefndir frá því hvað væri á dagskrá hjá þeim í vetur.

Farin var vinnuferð á Réttartorfu 15. – 17. september.  Gengi var frá neyðaútgöngum á svefnlofti og settir upp brunastigar og unnið að ýmsum frágangi. Einnig voru settar upp CB og VHF talstöðvar með tilheyrandi loftnetum og einnig farsímaloftnet.  Við prófanir kom í ljós að CB samband var niður fyrir Hrafnabjargavað og VHF datt ekki út fyrr en niður við þjóðveg 1, enda þótt samband væri misjafnt á köflum.  Samband náðist við
endurvarpa á Fjórðungsöldu á laugardaginn en ekki á sunnudaginn.   Farsímasamband var mjög gott.

Hildigunnur Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur hélt þriggja kvölda skyndihjálparnámskeið í september.

Októberfundurinn var haldinn 3. október.   Þar var greint frá 33″ ferðinni og landsfundinum.  Tillaga um breytingu á númerakerfi var rædd og var það mál manna, að ef breyta þyrfti kerfinu ætti að bæta Fe framan við félagsnúmer deildarinnar og láta skipaskráninguna eiga sig.  Að lokum sýndi Anton nokkrar myndir.

GPS námskeið fyrir byrjendur var haldið 5. október.  Þáttakendur voru á annan tug.   Umsjónarmaður var Smári Sigurðsson. Einnig var farin vinnuferð 5. október og sett upp innrétting í eldhúsið.

33″ ferðin var farin helgina 7.-8. október. Farið var vestur í Skagafjörð og síðan inn að Skiptabakka.  Frá Skiptabakka var ekið í Ingólfsskála og þaðan í Laugafell og gist þar.  Á sunnudeginum var farið úr Laugafelli niður í Bárðardal og komið við á Réttartorfu á heimleiðinni.  Í ferðinni voru 8 manns á þrem bílum.

Fjórir fulltrúar frá Eyjafjarðardeild fóru á landsfund helgina 14. – 15. október.  Þar bar helst til tíðinda að samþykkt var nýtt númerakerfi, og skyldi hver deild um sig fá einn bókstaf til að bæta framan við félagsnúmerið.   Notast verður við gamla bílnúmerakerfið og bætist A framan við númer Eyjafjarðardeildar. Þannig verður t.d. félagsnúmer undirritaðs A705 eftir þessa breytingu.
Á heimleiðinni var ekinn Eyfirðingavegur í Laugafell, en síðan austur á Sprengisandsleið og niður í Bárðardal. Þegar komið var norður og austur fyrir Laugafell  var kominn nokkur snjór og slóðir orðnar fullar, en víðast varasamt að aka utan við vegna grjóts.

Nóvemberfundurinn var 7. nóvember.  Þar var GPS námskeið og 44″ ferð kynnt og Ísleifur Erlingsson frá I. Erlingsson kynnti olíu og bensínmiðstöðvar til að halda kælikerfinu heitu þegar bílarnir eru ekki í gangi.

GPS námskeið fyrir lengra komna var haldið 8. nóvember og hafði Smári Sigurðsson umsjón með því.  Þar voru annars vegar kynnt forrit til að sækja (og geyma) og vinna með GPS punkta og hins vegar forrit til að birta kort á tölvuskjá og merkja ferla farartækja jafn óðum inn í kortið (og geyma þá og sækja).

44″ ferðin var farin 10.-12. nóvember.  Ekið var austur í Möðrudal og gist þar á föstudagskvöldi.  Á laugardeginum var ekið inn í Krepputungu og var ætlunin að fara í Hveragil og gista í Sigurðarskála.  Færð var ekki góð og útsýni orðið afar takmarkað þegar komið var inn á móts við brú við Upptyppinga svo ákveðið var að fara í Dreka og gista þar.
Þegar farið var af stað morguninn eftir var komið mikið kóf og hafði enn bætt á lausasnjóinn frá kvöldinu áður svo ákeðið var að fara sömu leið til baka.   Ekið var í lest og þótti gott að sjá afturljósin á næsta bíl á leiðinni niður að vegamótum við Herðubreiðartögl.  Þar tók veður að skána og þegar komið var austur fyrir Krepputungu var komið gott veður.  Aðeins bar á affelgunum og að göt kæmu á dekk, en að öðru leyti gekk ferðin vel í alla staði.   Í ferðinni voru 13 bílar og 28 manns.

Desemberfundurinn var haldinn 5. desember.  Á dagskránni var ekkert sérstakt efni og menn skoðuðu myndaalbúm og Anton sýndi nokkrar litskyggnur.  Með þessu var drukkið óáfengt jólaglögg og nartað í piparkökur.

Dagsferð var farin 30. desember inn á Réttartorfu.  Farið var með efni í brennu og síðan var farið upp á Hafursstaðaheiðina og ekið þar inn á hálendið.  Í ferðinni voru 11 bílar.

Janúarfundurinn var 9. janúar.  Þar kynnti Fjallasport ný Mickey Thompson dekk, loftdælur, læsingar og fleira.

Þrettándagleðin átti að vera 13. janúar, en vegna veðurs var henni frestað um viku og var hún haldin 20. janúar.  Flestir komu á föstudagskvöldi en einnig komu nokkrir á laugardeginum.  Á laugardags morgni fóru nokkrir bílar inn í Gæsavötn og voru þeir rúma 3 tíma á leiðinni inn eftir og heldur sneggri til baka, því færi var gott víðast hvar.  Um kvöldið var haldin brenna og skotið nokkrum flugeldum, en vegna þess að gleðinni
var frestað voru Bárðdælskir harmonikkuleikarar á þorrablóti á Stóruvöllum þetta kvöld.  Alls voru 14 bílar og 20 – 30 manns þegar mest var

Febrúarfundurinn var haldinn á Ólafsfirði 6. febrúar.  Sigurjón kynnti bílasmíði hjá Múlatindi og skráð var á þorrablót.

Þorrablót var haldið að venju og var það á Hveravöllum 10. febrúar.   Þeir ferðaglöðustu fóru á föstudagskvöldi inn í Laugafell og var færi gott nema frá Fossgilsmosum og inn að Galtabóli, þar var „saltsnjór“ og þungt færi. Á laugardeginum var farið suður fyrir Hofsjökul og um Setrið og Kerlingarfjöll til Hveravalla.  Ferðin gekk vel en snjóleysi sunnan Hofsjökuls var til baga.
Annar hópur fór á laugardaginn og ók veginn úr Blöndudalnum.  Veður var nokkuð bjart en dimmdi að er leið á daginn. Um kvöldið var síðan hefðbundin dagskrá, en ótrúleg söngatriði úr Höfðahverfinu bar þó hæst.  Á blótinu voru 30 – 40 manns á 20 bílum.
Daginn eftir var veður orðið bjart og fagurt og skiptust menn í þrjá hópa hvað heimferðina varðaði, sumir fóru þjóðveginn, annar hópur austur með Hofsjökli og síðan niður í Svartárdal en þriðji hópurinn fór um Skiptabakka niður í Skagafjörð.  Snjór var lítill en óx heldur er austar kom, þó var nægilegt hjarn til að slétt var yfir öll vatnsföll og mjög gott færi að öðru leyti en því að sums staðar voru auðar grjótbreiður.