2003-2004

Vinnuferð 30. – 31. maí.
Vinnuferðir á vegum skálanefndar og umhverfisnefndar voru farnar 30. – 31. maí.
Skálanefnd vann að hreingerningu á húsinu og viðraði dýnur, hugaði að vatnstanki og hæðarmældi vatnsbólið. Vegna rigningar var ekki hægt að bera á pallana eða utan á húsin. Viðarolía og penslar eru hins vegar til reiðu innfrá og geta þeir sem þangað koma gripið í að bera á.
Nánari upplýsingar veita Elli 894 4722, 854 4722 og Óskar 466 1575.
Umhverfisnefnd lagaði girðinguna, setti niður trjáplöntur, bar á og sáði í svæði utan girðingar með sáningarvél sem Landgræðslan lánaði. Ekki var sett rafmagn á girðinguna í þetta skipti.

Vinnuferð helgina 28. – 29. júní
28. júní verður farin vinnuferð á vegum umhverfis- og skálanefnda.
Umhverfisnefnd ætlar að líta eftir girðingu, kindur væntanlega mættar í nágrennið og setja niður nokkrar trjáplöntur til viðbótar.
Skálanefnd ætlar að vinna í vatnsmálunum og ætlunin er að eftir þessa vinnuferð verði vatnið komið inn í hús.
Einnig verður borið á hús og palla.
Lagt verður af stað frá Leiru kl. 9. Skálanefnd ætlar styttstu leið en umhverfisnefnd fer upp úr Eyjafirði. Komið verður við í Ytra-Fljótsgili og sóttar þangað nokkrar plöntur.
Nú er tækifæri fyrir alla sem vilja til að taka til hendinni og fara í skemmtilega ferð.

Vatn inn í hús
Síðustu helgi, 28. – 29. júní, var farin vinnuferð og nú er vatnið komið inn í hús. Til að fá vatnið til að renna þarf að kveikja á dælu með því að smella ljósarofa sem merktur er vatn. Rofinn er á veggnum hægra megin við eldavélina.
Einnig var borið á húsið og pallana, aukalag af mýflugum fylgdi með, og ljósavélin var löguð.
Umhverfisnefnd sótti plöntur inn í Ytra-Fljótsgil í sumar og gróðursetti á Torfunni. Því miður hafa komist kindur inn í girðinguna og étið talsvert af plöntum sem búið var að setja niður.
Þeir sem koma við í skálanum eru beðnir um að gæta þess vel að loka hliðinu.

Áminning frá Smára
Efni:
Eldsneytisfrágangur á hálendinu.
Eins og flestir vita koma jeppa og sleðamenn eldsneyti sínu fyrir á völdum stöðum á hálendinu. Sjálfsagt er þetta allt bannað en við gerum þetta samt okkur til þæginda.
Þessum birgðarstöðvum fjölgar stöðugt amk. hér á norðanverðu hálendinu. Í Gæsavötnum er kominn tími til að gera eitthvað róttækt í málinu. Þar má telja í stuttum göngutúr 19 „birgðastöðvar“. Sumar eru vel faldar og þarf mikla útsjónarsemi til að finna þær. Það merkir að eigendurnir hafa unnið heimavinnuna sína og gengið þannig frá að ekki er til ama.
Því miður eru enn nokkrir aðilar sem eiga þarna fiskikör eða önnur ílat sem blasa við ferðafólki í svörtu hrauninu. Þegar farið er að stafla fiskikörum í tvær hæðir er auðvelt fyrir sjóndapra að sjá þau í margra mílna fjarlægð þar sem bakgrunnurinn er svartur. Hvað þá þegar 4 stk 200 ltr tunnur eru látnar standa á fjölförnu, göngutúra svæði staðarins.
Í Gæsavötnum eru allar gistinætur bókaðar fram í miðjan september, og umferð „gömlu Gæsavatnaleiðar“ er mjög mikil. Það eru því nokkur hundruð ef ekki þúsund manns sem fara um svæðið og skoða „birgða“ dýrðina.
Það eru því eindregin tilmæli Gæsavatnafélagsins að menn taki þetta til sín sem eiga, og gangi betur um.
Frelsið sem við höfum er vandmeð farið, það getur verið dýrt að misnota það
Fjalla – kveðjur
Frá Gæsavatnafélaginu
Smári Sigurðsson

Til þátttakenda í septemberferð
Undirbúningsfundur verður haldinn í húsnæði Súlna fimmtudaginn 11. september kl. 20. Farið verður nánar yfir ferðaáætlun og skiptingu í hópa.
Bílar sem ætla með í ferðina þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði hvarð varðar dekkjastærð (Miðað er við skráða þyngd, þannig dugar t.d. Patrol og Land Cruiser að vera á 38″ dekkjum)
Bíll yfir 2600 kg        þarf    44″ dekk
Bíll 2200 – 2600 kg  þarf    38″ dekk
Bíll 1500 – 2200 kg   þarf    36″ dekk
Bíll undir 1500 kg     þarf     35″ dekk
Einnig verða að vera í hverjum bíl talstöð og 230 lítar af eldsneyti.
Gistigjöld í skálum munu vera 1600 krónur fyrir utanfélagsmenn, en 1300 krónur fyrir félaga í Ferðafélginu/JÖRFI.
Nánari upplýsingar veitir Sigurkarl Aðalsteinsson, GSM 8920083, VS 4627233 eða 4612726.

Vatnajökulsferð frestað
Vegna vondrar veðurspár um helgina hefur verið ákveðið að fresta Vatnajökulsferðinni um mánuð, þ.e. til 10. – 12. október. Ferðaáætlun er að að öðru leiti óbreytt.
Mæting á föstudag er kl. 19:00 á Leirunni. Brottför kl. 19:30. Farið verður í Laugafell og gist.
Á laugardeginum verður farið um Vonarskarð, upp Köldukvíslarjökul og gist á Grímsfjalli.
Sunnudagurinn verður notaður til heimferðar og valin verður leið að einhverju leiti eftir veðri og skyggni en sennilegast að komið verði niður annað hvort við Kistufell eða Snæfell.

Farin var vinnuferð helgina 20. – 21. september. Gengið var betur frá báðum endum á vatnsleiðslunni og girðingin gerð klár fyrir veturinn.
Vegna veðurs var hætt við að fara inn á Fjórðungsöldu og hækka endurvarpann. Það bíður betri tíma eins og að fara með olíu á húsið.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lagði fé í vegabætur á leiðinni frá Stórutungu inn að Réttartorfu nú í haust. Bændur óku efni úr Fljótinu í veginn þar sem verst var og mun hann hafa tekið nokkrum framförum við það. Ekki er þó um neina hraðbraut að ræða, enda peningarnir ekki miklir sem unnið var fyrir.
PS. Starfsmenn Sandblástursins fóru inn á Réttartorfu þann 3. október og segja að „færðin“ á Stórutunguleiðinni hafi batnað mikið við þessar aðgerðir. Vatnið var líka í góðu lagi svo ekki fór það eftir fyrstu frostnóttina, eins og sumir óttuðust.

Vinnuferð 18. – 19. október.
Stefnt er að vinnuferð inn á Réttartorfu 18. október. Lagt verður af stað frá Leirunni kl. 9:00. Fyllt verður á olíutankinn og sett upp útiljós. Grillað um kvöldið og farið heim á sunnudag. Nánari upplýsingar veitir Elías í skálanefnd.
Ungir vegfarendur ætla líka á stúfana þessa helgi og hyggjast fara inn á Fjórðungsöldu til að hækka endurvarpann.

Marsfundur.
Á fundinum kynnti Halli Gulli nýja verslun fyrir jeppamenn, Kliptrom, sem hann er að fara af stað með. Kári Þórisson kynnti driflæsingu (Algrip) og skriðgír sem hann smíðar, en hvort tveggja verður til sölu hjá Kliptrom. Á eftir sýndi Gísli Ólafsson myndir úr Nóvemberferðinni og ferð sem hann fór með Húsavíkurdeild á gamlársdag.
Ekkert varð af því að Húsavíkurdeildin blótaði Þorra á Réttartorfu, heldur fóru þeir í skálann á Þeistareykjum. Annars er það af færðinni inn á Réttartorfu að segja að fært er inn að Sandá, en hún er ófær bílum og illfær gangandi mönnum.

Lifandi myndir.
Björgunarsveitin Súlur stendur fyrir kvikmyndasýningu í Nýja Bíói, þriðjudaginn 30. mars kl. 18:00 til 20:00. Miðaverð 600 kr.
Sýndar verða myndir frá hinni árlegu kvikmyndahátíð í Banff í Kanada, en hún er helsti vettvangur þeirra sem gera íþróttamyndir tengdar útivist. Í myndunum í ár er m.a. fjallað um skíði, snjóbretti, ísklifur, klifur og Kayak siglingar í ám svo eitthvað sé nefnt.
Auk erlendra mynda verður ein íslensk mynd á dagskrá: Vatnajökulsleiðangur 1977. Hér gefst tækifæri til að sjá hvernig jöklaferðir voru fyrir 27 árum.

Aprílfundur
Elías Þorsteinsson greindi frá því, að búið væri að leggja teikningar að viðbyggingu við Réttartorfuskálann inn til byggingarfulltrúans í Þingeyjarsýslu. Staðfesting á samþykki hafði ekki enn borist. Stefnt er að smíði á viðbyggingunni á Akureyri í maí. Verður hún annað hvort byggð í heilu lagi eða smíðaðir verða flekar sem settir verða saman á staðnum. Vinnuferð til að tengja hana við skálann, grafa fyrir rotþró o.fl. verður í júní.

Gestur fundarins var Gylfi Már Jónsson frá símanum og fræddi hann fundarmenn um NMT kerfið. Það verður í fullum rekstri a.m.k. til 2007, en þá rennur rekstarleyfi Símans á því út. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um framhaldið, en notendur eru núna rúmlega 20 þúsund og verða ekki skildir eftir án langdrægs símakerfis, sagði Gylfi.
Síminn er nú búinn að þróa möguleika á að nota NMT og gervihnattasíma til gagnaflutninga, þ.e. flutnings á tölvupósti.
Verð á gervihnattasíma, sem hentaði í jeppum, er nú um 170 þúsund og mínútuverðið er um 100 kr. Símtöl um gervihnattasíma eru í raun útlandasímtöl og ódýrari í mörgum tilfellum en að tala heim úr GSM síma.
Veitingar í boði Símans voru eftir kynningu Gylfa og að lokum var litið á myndband frá torfærukeppni í Ástralíu.

KT verslun býður í opnunarhátíð
Halldór G. Hauksson er að fara af stað með nýja búð með jeppa- og útivistarvörum. Hann sendir félögum í 4×4 eftirfarandi boðsbréf:
Öllum félögum í Eyjafjarðardeild 4×4 er boðið í veislu, hjá KT verslun, í tilefni af opnun fyrstu alvöru jeppabúðarinnar á Norðurlandi.
Herlegheitin verða að Njarðarnesi 2, föstudaginn 16.april kl.19:00-21:00 og verður boðið upp á mjög léttar veitingar.
Takið með jeppasögur og slúður og látið konurnar keyra.
KT verslun

Halldór G. Hauksson

Fjölskyldudagurinn.
Erfiðlega gekk að fá veður til að halda fjölskyldudaginn og var allur snjór farinn, eða ófært í hann vegna aurblautu, þegar loks viðraði. Brugðið var á það ráð að fara út í Höfðahverfi og fá far með Kaldbaksferðum upp á Kaldbak. Síðan var grillað í gili Grenjár og síðan fóru menn niður með ýmsum hætti. Hér fylgir mynd af Kaldbak, sem Adam Óskarsson tók í ferðinni.