1997-1998

Í haust  (ágúst og september 1997) var unnið við framkvæmdir á Réttartorfu og var eftirfarandi gert:
Gengið var frá leiðslum frá olíutunnu í dagtank og fyllt á tunnuna.
Sett var plexiglersplata bak við þurkgrind í forstofu og gengið frá listum á nokkrum stöðum
Gengið frá tveggja hólfa gaseldavél og hún tengd.
Smíðað snyrtihús (eftir er að setja hurð og salerni með tanki).
Loftið í salnum einangrað og panelklætt.

33″ferðin var farin helgina 11. – 12. október.  7 bílar lögðu af stað, en þegar upp úr Eyjafjarðardal var komið varð ljóst að færðin var mun þyngri en búist var við.  Eini 33″ bíllinn var því skilinn eftir.  Ekki var þó snjórinn nógu mikill, svo að dekkjaskaðar hlutust af og varð einn að fá sent dekk frá Akureyri fremst í Eyjafjarðardal  á móti sér.
Um  21 um kvöldið voru svo allir komnir í hinn nýja og glæsilega Gæsavatnaskála.
Daginn eftir var síðan lagt af stað og ekin leiðin norðan við Trölladyngju.  Farið var um hraun með snjó í og urðu enn skemmdir á dekkjum.  Þegar komið var austur undir Þríhyrning var stefnan tekin í norður og ekið að Réttartorfu.  Þaðan var svo farið um Hrafnabjargavað vestur á Sprengisandsleið og gekk vel, botn góður og vatn rétt í hásingar.

Helgina 24.  – 26. október var farin  vinnuferð  og gólf í salnum dúklagt, sett upp rúmstæði í sal og salernisskál og tanki komið fyrir í snyrtihúsi.  Vonir standa til að hægt verði að fara eina ferð enn fyrir hátíðar og ganga frá hurð að snyrtihúsi, en nú er aðeins fleki í dyrunum og þarf að nota klaufhamar til að komast inn.

44″ ferðin  var farin 7. – 8. nóvember.   Farið á föstudagskvöldi austur á Húsavík og þaðan inn að Þeistareykjum og gist í ágætum skála, sem Húsavíkurdeild 4×4 hefur umsjón með. Á laugardeginum var síðan farið upp í Mývatnssveit og skoður svonefndur Lofthellir og kíkt á Lúdent og Lúdentsborgir og komið heim um kvöldið.
Sjö bílar lögðu af stað á föstudagskvöldi og sá áttundi bættist í hópinn þegar komið var á Kísilveginn á Hólasandi.

Helgina 6. – 7. desember var farin  vinnuferð  og var eftirfarandi gert: Komið fyrir nýjum stiga.  Komið með 5 ný borð og hornsófa.  Komið með stóran gasofn.  Bætt olíu á olíutunnuna.  Sólóvélin hresst við, svo að nú skilar hún mun meiri hita en áður.

Milli hátíða var farið inn eftir og hurð sett á snyrtihúsið og hlaðinn bálköstur úr timburafgöngum frá byggingu hússins.

Helgina 10. – 11. janúar var haldin  þrettándagleði  á Réttartorfu.  14 bílar og rúmlega 30 manns fóru inneftir á föstudagskvöld og á laugardeginum.  Aðfaranótt laugardagsins hafði snjóað og voru sums staðar komnir nokkrir skaflar.  Sandáin var hins vegar lögð, svo að engir farartálmar urðu á leiðinni. Um kvöldið var brenna og flugeldum skotið.  Síðan léku Bárðdælskir nikkarar (Tryggvi í Svartárkoti og Jónas á Lundarbrekku) fyrir dansi og söng fram eftir nóttu.  Á sunnudaginn var síðan haldið heim og gekk ferðin vel, enda þótt einn bíllinn væri aðeins á afturdrifinu.

Þorrablót  Eyjafjarðardeildar var haldið 14.-15. febrúar á Hveravöllum. Þeir hörðustu fóru af stað á 5 bílum á föstudagskvöld og ætluðu að gista í Setrinu og koma þaðan á blótið. Þegar þeir komu upp í Bakkaselsbrekkuna var komið vitlaust veður og ferðin breyttist í björgunarleiðangur. Þarna rákust þeir á einn félaga okkar á fólksbíl og einn bíllinn lóðsaði hann heim, en hinir fóru að bjarga fólki úr föstum bílum niður af heiðinni og koma þeim í hendur á hjálparsveitum. Þeir unnu að þessu alla nóttina og komu dauðþreittir til
byggða um morguninn.
Aðrir höfðu ætlað að fara um 11 á laugardagsmorgni, en frestuðu förinni fram til 3 um daginn. Þá var komið skaplegt veður á Akureyri og var snjólaust og þokkalegt skyggni til aksturs upp að Bakkaselsbrekku. Þar var hvassviðri og skafrenningur svo varla sást á milli bíla. Vegurinn í brekkunni var illfær vegna skafla og bíla og urðu menn að aka að mestu utan vegar upp. Það tók um einn og hálfan til tvo tíma að koma öllum bílunum 16
upp brekkuna. Eftir það var snjólaust inn fyrir Seyðisá og veður að mestu skaplegt.
Þar tók við snjór, sem var fremur þungur til aksturs. Til Hveravalla var komið um 10 að kvöldi.
Þegar leið að kvöldi fóru undanfararnir frá kvöldinu áður að hressast aftur og þeystu af stað á þrem bílum, og hljómsveit deildarinnar á þeim fjórða. Þeir komu til Hveravalla um það leyti sem aðrir voru að vera búnir að borða, en það óhapp varð inn undir afleggjara að hljómsveitin ók á jarðfastan stein og laskaði bíl sinn.
Eftir matinn hófst söngur og gleðskapur og stóð fram undir morgun.
Um hádegi daginn eftir var lagt af stað og fóru tveir bílar til byggða með þeim laskaða, en aðrir stefndu upp á Langjökul í sólskini og góðu skyggni. Þeir sem lengst fóru óku suður að Þursaborg. Síðan var snúið við og menn óku til síns heima eftir skemmtilega ferð.

Jeppadagurinn  árið 1998 var haldinn laugardaginn 7. mars.  Veður var mjög kalt, 15 -20° frost, en glampandi sólskin.  Ekki var hægt að auglýsa í byrjun vikunnar hvert farið yrði, vegna ótryggs veðurútlits og vafasamrar færðar.  Þetta og kuldinn hefur sennilega dregið úr aðsókninni, en nú mættu aðeins 27 bílar til leiks.  Farið var inn á Réttartorfu og lá leiðin frá Mýri og yfir Fljótið á ís á Hrafnabjargavaði.  Færi var erfitt, en samt tókst öllum að komast inn eftir.  Þar beið upphitaður skáli eftir gestum, því nokkrir félagar höfðu farið
kvöldið áður og voru búnir að hita bæði skála og snyrtihús.  Klúbburinn bauð nú upp á veitingar og að því loknu fóru sumir (einkum þeir yngstu) að renna sér á snjóþotum, en aðrir fóru í könnunarferðir um nágrennið.
Á heimleiðinni lenti einn bíllinn með framendann niður um ís og beygði stífu, en það tókst að ná honum upp og rétta stífuna, svo hann komst heim vandræðalaust.  Allir voru síðan komir heim aftur um kvöldmatarleytið.

Bjórkvöld  var haldið föstudagskvöldið 5. apríl.  Mæting var slök, aðeins 11 létu sjá sig.  Þeir sem mættu ræddu málin og skoðuðu myndir frá ferðum vetrarins og fóru síðan heim eða á nærliggjandi skemmtistaði upp úr 2.
Síðast breytt 5. apríl 1998.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.