Gil Sandmúladalsár

Næsti staður í nágrenni Réttartorfunnar sem ég ætla að segja frá er gil Sandmúladalsárinnar.

Það er gil við upptök Sandmúladals, ca 15 km frá Réttartorfu, í um það bil 570 m hæð. Auðvelt er að komast þangað,slóð liggur upp með girðingunni umhverfis skálann að sunnan upp á heiðina fyrir ofan og suður með hlíðinni, áfram suður með Sandmúladal, suður fyrir Álftartjarnarflæðu, upp á hæð með smávörðum. Þar er sveigt til vesturs niður að gilinu. Gilið er nafnlaust (Álfagil) það voru bændur í göngum sem bentu mér á að skoða gilið því það er bæði þröngt og fallegt.

Það er best að ganga að gilinu neðan frá, þar eru volgar uppsprettur 14 -17°C heitar og nokkuð vatnsmiklar. Þar kemur ein lind upp á klettarima sem gengur út í Sandmúladalsána og er nokkur gróður í kring. Áin er geysi falleg, mosavaxin í botninn, silfur tær með fossum, flúðum og dökkbláum hyljum. Litaskil eru þarna ákaflega skörp því það er enginn gróður í kring, einungis við gilið og ánna.

Um 200 m ofar streymir vatnsmikil lind út úr hlíðinni með rauðum þörungagróðri. Vatnið rennur beggja megin við klettadrang sem á var gæs á hreiðri í sumar,snemma. Það eru fleiri svona uppsprettur í og við gilið

 

Þarna hefst sjálft gilið sem grafið er í móberg, það er geysi þröngt á tveim stöðum, 2 m efst en breikkar niður. Fallegar klettamyndanir eru víða, samspil fossa, flúða og djúpra hylja.

 

Ofarlega sveigir gilið til vesturs með klettaþili nokkuð sléttu, þar endar gilið. Til gamans má geta umsagnar konu sem var að skoða gilið, hún sagði að þetta væri alveg eins og álfabústaðurinn í Hringadrottinssögu. Mæli með að skoða gilið. Gilið (Álfagil) myndast mjög vel í sólskini þá verða litaskilin einstaklega skörp.

Á vesturbakkanum, í lægð sunnan við gilið, er vandlega hlaðin varða, gömul. Þetta er mjög undarlegur staður fyrir vörðu, enda kannast bændur á svæðinu ekki við hana.
Í Hranasögu Hrings segir að Sigfúss, mikið íllmenni úr Mývatnsveit, og Vakr sauðamaður Helga króks eltu sauðahóp lengi dags að gjá einni og náðu þeim þar. Helgi krókr átti sauðina en íllmennið Sigfúss vildi eignast þann stærsta fyrir ómakið, en Vakr vildi ekki láta sauðinn. Þá reiðist íllmennið Sigfúss og heggur Vakr í hausinn með öxi svo úti lá heilinn. Þá koma þar að Hrani hringur og förunautar og sjá Vakr veginn. Hrani vill hefna og drepur íllmennið Sigfúss.Var Sigfúss urðaður á staðnum og trúlega Vakr líka. Kannski er varðan til að merkja þann stað?

Jóhann Björgvinsson A-729.

Fleiri myndir úr gili Sandmúladalsár eru hér.