1999-2000

Fyrsti fundur haustsins var haldinn 7. september. Þar greindu nefndir frá því hvað væri á dagskrá hjá þeim í vetur.

Farin var vinnuferð á Réttartorfu 17. – 19. september. Varnargarður við Grafarlandagróf var lagfærður, settur niður nýr og stærri olíutankur (og fylltur af olíu) og vatnstankur, en eftir er að afla vatns í hann. Sólpallur við húsið var stækkaður og settar niður undirstöður að gönguleið yfir að snyrtihúsi. Næstu helgi á eftir var lokið við undirstöðurnar, byggður pallur framan við snyrtihús og helmingur göngubrautarinnar.

Aprílfundurinn var haldinn 4. apríl. Þátttakendur í Aldamótaferð sögðu ferðasögur og sýndu myndir úr ferðinni.

33″ ferðin var farin 9. – 10. október. Þrír bílar fóru inn að Sörlastöðum og síðan um Hellugnúpsskarð yfir í Bárðardal og þaðan inn á Réttartorfu. Aðrir tveir fóru beina leið inn á Réttartorfu og luku við göngubrúna að snytihúsinu. Á sunnudag var síðan haldið heim.
Októberfundurinn var haldinn 5. október. Gunnar Kristinsson greindi frá fyrirhugaðri 33″ ferð, ákvörðun var tekin um að taka þátt í sýningunni „Vetrarsport 1999“. Grétar G. Ingvarsson flutti pistil um ýmis jarðfræðileg fyrirbæri sem verða á leið manna frá Akureyri inn á Réttartorfu.

Nóvemberfundurinn var haldinn 2. nóvember. Ari gerði grein fyrir landsfundi klúbbsins helgina áður,  Gunnar Kristinsson sagði frá fyrirhugaðri 44″ ferð og Gísli Pálsson sagði frá því að stefnt væri að því að halda árshátíð 27. nóvember í Sveinbjarnargerði. Þetta yrði auglýst rækilega síðar. Aðaldagskrárliður kvöldsins var myndasýning Páls Arasonar, en hann sýndi fjölda mynda frá ferðalögum á árunum 1945 – 1956 og kynnti þær
eins og honum einum er lagið.

44″ ferðin var farin 5. – 7. nóvember. Farið var frá Akureyri á föstudagskvöldi og gist á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Á laugardaginn voru Hafrahvammagljúfur skoðuð, síðan var haldi inn í Grágæsadal og gist þar.
Á sunnudaginn var haldið heim um Fagradal og niður á Kverkfjallaleið. Þar var litið við í Arnardal en síðan ekið sem leið liggur niður að Möðrudal og heim. Veður var oftast gott á laugardeginum og hið fegursta á sunnudeginum. Í ferðinni voru 11 manns á 7 bílum.

Árshátíð var haldin 27. nóvember í Sveinbjarnargerði. Þar nutu menn ágætra veitinga undir sköruglegri veislustjórn Björns Björnssonar. Björn og skemmtinefndin sáu um skemmtiatriði. Gunni Tryggva sá um dinner músík og lék síðan fyrir dansi á eftir. Á skemmtinefnd þakkir skildar fyrir að standa fyrir þessari fyrstu árshátíð Eyjafjarðardeildar. Áhugi var mikill í upphafi fyrir árshátíðinni, en þegar upp var staðið voru það rúmlega 30 manns sem mættu. Væntanlega koma fleiri næst!

Desemberfundurinn var haldinn 7. desember. Á boðstólum voru piparkökur og jólaglögg og menn mættu með myndaalbúmin sín.

Janúarfundurinn var haldinn janúar. Meginefni fundarins var æfing í dekkjaviðgerðum með töppum og rafsuða með rafgeymum og startköplum. Umsjónarmenn Tómas Ingi Jónsson og Jörundur kafari.

GPS námskeið fyrir byrjendur var haldið fimmtudaginn 13.janúar. Þáttakendur voru 10. Umsjónarmaður var Smári Sigurðsson.

Ferð á Réttartorfu og þrettándagleði var 15. janúar. Um kvöldið voru 18 bílar og ca. 30 manns, auk hinna ágætu harmonikkuleikara Tryggva í Svartárkoti og Jónasar á Lundarbrekku og Hlyna bílstjóra þeirra. Haldin var brenna, enda þótt grafa yrði hana niður í holu í snjónum vegna hvassviðris og einnig var skotið flugeldum, sem sumir náðu 10 m flughæð.

Febrúarfundurinn var haldinn 8. febrúar. Meginefni fundarins var lýsing Vilhjálms Hveravallabónda á úrhleypingarkerfi, sem hann hafði smíðað og sett í bíl sinn.

Bjórkvöld var haldið í salnum á Furuvöllum 5. febrúar. Þátttaka var þokkaleg hjá Akureyringum, en aðrir komu ekki á staðinn.

Þorrablót var haldið á Hveravöllum 19. febrúar. Sumir fóru á föstudegi en aðrir á laugardegi. Á laugardagskvöldinu var haldið blót sem fór hið besta fram. Morguninn eftir var haldið heim í ofanhríð og blindu.

Marsfundurinn var haldinn 7. mars. Efni fundarins var ferð yfir Grænlandsjökul á jeppum og var það Freyr Jónsson sem sagði frá og sýndi myndir.

Jeppadagur var haldinn 18. mars. Farið var inn að Baugaseli og voru 24 bílar í ferðinni.