2001-2002

Vinnuferðir í sumar.
Farin var vinnuferð á Réttartorfu helgina 8.-10. júní. Settar voru höldur á skápa, klæðningu á svefnlofti lokað og sett þar upp ljós. Einnig voru settar sólarrafhlöður á snyrtihús til að halda hleðslu á rafgeymum ljósavélarinnar.
Farin var önnur vinnuferð 22. – 23. júní. Borin voru á ca. 800 kg af áburði, mokað út úr kamri, borin olía á göngupalla, hurðarpumpur voru settar á glugga á svefnlofti og fest upp grind undir umslög fyrir þá sem hafa ekki peninga meðferðis.
Helgina 14. – 15. júlí var farin vinnuferð og sett upp rafmagnsgirðing umhverfis Torfuna.
18. – 19. júlí var farið inn á Fjórðungsöldu og VHF loftnetið þar lagað og á nú að vera gott samband milli endurvarpans þar og Réttartorfu.
Farin var vinnuferð helgina 8-10 sept. Klárað var að ganga frá rafmagnsgirðingu og setja upp hlið á girðinguna, lúga var sett í stigaop upp á svefnloft, borið var á austurhlið skála, vatnsleiðslan var lengd og vatn tekið úr lind sem er ca.300 m ofar í gilinu, mjög gott vatn og lítið minna rennsli.

Sumarhátíðin var haldin 20. – 22. júlí og var frásögn af henni í síðasta Setri.

Eyjafjarðardeild var með kynningu í formi myndasýningar á sýningunni í Laugardagalshöll 5. – 8. október. Einnig voru tveir bílar frá deildinni á sýningunni, annar innan dyra en hinn utan.

Vinna við brúargerð
Á októberfundinum kom fram að Eyjafjarðardeild 4×4 ætlar að taka þátt í vinnuferð næstu helgi til að endurbyggja brú yfir Sölvadalsá, þannig að greiðfærara verði að komast um Kerhólsöxl í Sölvadal. Björgunarsveitin Dalbjörg hefur forgöngu um málið en einnig eru Súlur og vélsleðamenn með í þessari framkvæmd. Lagt verður af stað kl. 10 n.k. laugardag. Einnig verður farin vinnuferð hálfum mánuði seinna

33″ ferðin
Í skoðanakönnun á vefnum voru 26 þátttakendur. 12 vildu fara inn á Réttartorfu, 4 á Þeistareyki, 1 á Strandir og 9 til Reykjavíkur.
Ákveðið var að leggja af stað frá Leirunesti kl. 10.00 á laugardag og aka í Mývatnssveit. Fara síðan suður frá Grænavatni og inn í Suðurárbotna og þaðan niður að Svartárkoti og inn á Réttartorfu og gista þar. Á sunnudeginum átti að fara heim, helst yfir Fljótið og heim um Mýri.
Ferðin var síðan auglýst í Dagskránni, á heimasíðu klúbbsins (www.f4x4.is) og heimasíðu Eyjafjarðardeildar.
Þegar leggja átti af stað á laugardagsmorgni voru aðeins 5 manns á tveim bílum mættir, og voru ferðanefndarmenn ökuþórar á þeim báðum. Ákveðið var að slá ferðina af og fara í landkönnunar- og ferlunarferð upp í Mývatnssveit. Þar var síðan farið út í Hvannstóð og síðan frá Hverarönd um Búrfellshraun og komið á þjóðveg aftur við afleggjarann inn að Skógarmannafjöllum. Að lokum var litið á gamlan gagnamannakofa, Klaustur, og síðan ekið heim.

Nóvemberfundurinn þann 6. verður með öðru sniði en venjulega, við munum byrja kl.20.oo í Lundi á hefðbundinn hátt en síðan færa okkur út í Dekkjahöll, þar sem þeir Gunni og félagar ætla að kynna fyrir okkur nýju skurðartæknina ásamt ýmsum dekkjagerðum.

Bjórkvöld verður föstudaginn 23. nóvember í húsnæði Vífilfells, Furuvöllum 20. Aðgangseyrir er 1000 kr.
MÆTA VERÐUR STUNDVÍSLEGA.

Vegna veðurs var 44″ ferðinni, sem fara átti 9. – 11. september, frestað.
Hún verður farin næstu helgi á eftir. Þar sem Gæsavatnaskáli er upptekinn um helgina hefur verið ákveðið að breyta um ferðaáætlun. Farið verður frá Leiru kl. 20.00 á föstudagskvöld og gist á Þeistareykjum.
Laugardeginum verður varið til náttúruskoðunar, farið verður í hellakönnun og litið á Litla-Víti og Gæsadal ef tími og birta leyfa. Komið heim á laugardagskvöld. Fararstjóri og leiðsögumaður verður Jóhann Björgvinsson.

Jeppasýning verður á Bílasölu Sigurðar Valdimarssonar ehf, Óseyri 5 Akureyri, laugardaginn 17. nóv frá kl 13 til 17 eh. Sýndir verða Nissan Jeppar, allt frá óbreyttum upp í 44″ breytta. Mest breytti Patrol landsins verður á staðnum.
Forsýning verður fyrir félaga í 4×4 klúbbnum, björgunarsveitarmenn og aðra velunnara föstudaginn 16.nóv frá kl 18.til kl 20. Í boði verða léttar veitingar.

Desemberfundurinn var haldinn 4. desember í Lundi. Þetta var síðasti fundurinn í Lundi, því Súlur eru búnar að selja húsið. Næsti fundur (8. janúar 2002) verður í Sæplasti á Dalvík, en ekki er búið að ákveða hvar aðrir fundir fram til vors verða.
Á fundinum, sem um 30 manns sóttu, var fyrst kynning frá Bílanausti á aukaljósum frá Hella. Næst sögðu Siddi og Grétar frá undirbúningi ferðar suður Sprengisand í mars 2002 og að lokum voru sýndar myndir. Fyrst myndband af jeppaferð norðan og austan Vatnajökuls og síðan litskyggnur. Veitingar voru óáfengt jólaglögg og
piparkökur.

Farin var dagsferð inn á Réttartorfu laugardaginn 29. desember. Farið var á 8 bílum frá Akureyri upp úr klukkan 10. Opinber tilgangur ferðarinnar var að fara með brennuefni fyrir þrettándagleðina. Tveir bílanna voru með kerrur með timbri og í þeim og nokkrum til viðbótar var meira efni í brennuna.
Farið var inn frá Mýri og var snjór aðeins í dældum og sunnan í hæðum en annars allir melar auðir. Þegar komið var inn að Hrafnabjargavaði kom í ljós að Fljótið var lagt frá vestari bakkanum og langleiðina yfir að hólmanum. Þó var opinn áll þar á milli og einnig milli hólmans og eystri bakkans. Nokkra stund tók að brjóta rennu í þann hluta íssins sem ekki var bílheldur og skarirnar við austurbakkann voru nokkuð erfiðar, stífur fyrir afturhásingu á einum bílnum bognuðu þar aðeins.
Greiðlega gekk að komast inn á Torfu því Sandáin var á traustum ís. Eftir að hafa affermt bílana og tekið góðan kaffitíma var snúið heim aftur og gekk greiðlega að fara til baka yfir Fljótið.

Janúarfundurinn var haldinn 8. janúar á kaffistofunni í Sæplasti á Dalvík. Sigurkarl gerði grein fyrir fyrirhugaðri ferð Norður- og Austurlandsdeilda suður Sprengisand í byrjun mars. Þorstein Hjaltason sagði frá göngu- og jeppaleiðum í Svarfaðardal og hann og Villi Reynis sýndu fundarmönnum verksmiðjuna.

Þrettándagleði var haldin á Réttartorfu laugardaginn 12. janúar 2002. Sex félagar á fjórum bílum fóru inn eftir á föstudagskvöldi og aðrir sex á þrem bílum bættust við um hádegi á laugardegi. Nokkru seinna fóru menn aðeins út að aka og fóru sumir í könnunarferð um Hafursstaðaeyrarnar en hinir inn Hafursstaðaheiðina og
síðan yfir Sandmúladalsá og vestur á Laufrandarleið og hana til baka.
Í stuttu máli má segja að færið núna sé grjót og svell á þessu svæði.
Um kvöldi komu sex félagar á fimm bílum, en þeir höfðu farið á föstudagkvöldi upp úr Eyjafirði og gist í Laugafelli og skroppið síðan inn í Gæsavatnaskála. Eitthvað var um snjó þar uppi en þó meira af svellum með vatni og drullu undir svo þeir fóru ekki Kiðagilsdrög til baka heldur þræddu vatnaskil yfir að Galtabóli og þaðan niður undir Kiðagilshnjúk.
Um kvöldið var brenna og flugeldum skotið en eftir það komu Bárðdælskir harmonikkuleikar með rótara sínum til skjalanna og héldu uppi fjöri fram á nótt.
Þrír félagar fóru heim um kvöldið, Bárðdælir um nóttina og afgangur liðsins á sunnudaginn.

Þorrablót
Úr bréfi frá formanni deildarinnar
…..
Þá er það ákveðið að Þorrablótið verði haldið á Mývatni nánar tiltekið laugardaginn 9.febrúar í Seli-Hótel Mývatn. Verðið er 5.500,- pr. mann og innifalið er Þorraveislan, gisting í tveggja manna herbergjum og svo morgunverður á sunnudeginum fyrir þá sem vakna nógu snemma. Mæting á staðnum kl. 11 á laugardagsmorgninum (við förum ekki í hóp frá Leiru eins og venjulega) og ætlum við að nýta daginn til að fara í skoðunarferð um nágrennið (Seljahjallagil t.d.) og blótið hefst svo milli kl. 19.oo og 20.oo Menn verða
að skrá sig ekki seinna en á febrúarfundinum.
Kveðja, Ari

Febrúarfundurinn var haldinn 5. febrúar í sal Starfsmannafélags KEA í Sunnuhlíð, en þar verða fundir deildarinnar fram að sumarhléi. Skráning var á þorrablót og í ferðina „101 Reykjavík“. Aðalefni fundarins var fyrirlestur Skúla H. Skúlasonar um gerð vídeómynda af ferðalögum og sýning mynda sem hann hefur gert.
Myndir Skúla voru mjög góðar og fyrirlesturinn fróðlegur og m.a. vísaði Skúli mönnum á heimasíðuna http://www.dvc.uk.com í sambandi við tölvur og tæki.

Skráningu bíla í 101 Reykjavík er lokið
Fjöldi þátttakenda hefur nokkuð verið að breytasta síðustu dagana, sumir að hætta við og nokkrir nýir aðbætast við. 74 bílar eru skráðir í ferðina og skiptast þannig:
Skagafjarðardeild 5 bílar.
Eyjafjarðardeild 32 bílar.
Húsavíkurdeild 7 bílar.
Austurlandsdeild 19 bílar.
Frá Reykjavíkursvæðinu 11 bílar.

Tilboð á míkróskurði fyrir þátttakendur í 101 Reykjavík
Jörundur Þorgeirsson sendi umsjónarmanni heimasíðu eftirfarandi bréf:
Gunnar í Dekkjahöllinn vill bjóða þeim mönnum sem skráðir eru í ferðina 25% afslátt á míkróskurði í dekkin sín fyrir ferðina.
Þetta er víst í eina skipti sem svona boð hefur komið frá þeim og gaman þætti mér ef að ferðafélagar okkar gætu nýtt sér þetta.
Kveðja,
Jörundur H. Þorgeirsson
Myndir frá Jörundi frá undirbúingi ferðar og úr ferðinni sjálfri eru hér.

101 Reykjavík lokið
Sprengisandsferðin „101 Reykjavík“ var farin um helgina. 68 bílar fóru suður í Nýjadal á föstudeginum og einn lagði af stað á laugardagsmorgni en varð frá að hverfa og ók þjóðveginn suður til móts við hina. Veður var gott á laugardeginum en færi misjafnt, verst var grjótið sem talsvert var af alla leið suður í Kiðagilsdrög.
Hópum gekk misjafnlega og síðustu menn voru að koma í Nýjadal undir miðnættið.
Um nóttina versnaði veður og um morguninn var hvasst og skafrennigur og skyggni nær ekkert. Fyrstu hópar fóru af stað um 8 og bárust þær fregnir frá þeim að veður og færð færi versnandi þegar sunnar kæmi. Í ljósi þessa var ákveðið að seinni hóparnir færu yfir á varaleiðina (Kvíslaveituveginn). Þegar komið var vestur undir Háumýrakvísl lagaðist veðrið og þaðan var auðekið niður Kvíslaveituveg og niður að Hrauneyjum.
Flestir komu við á bílasýningu hjá Ingvari Helgasyni og þáðu veitingar og upp úr kl. 20 á
laugardagskvöldinu hófst matarveisla í Mörkinni. Sýning á bílum þátttakenda var hjá Ingvari Helgasyni kl. 10:30-11:30 á sunnudeginum og að henni lokinni var ferðinni formlega slitið. Sumir fóru síðan heim eftir þjóðveginum, aðrir ætluðu Kjöl og enn aðrir ætluðu að taka nokkra daga til viðbótar í að komast heim um hálendið.
Undirritaður vill þakka öðrum ferðanefndarmönnum samstarfið, sérílagi Sigurkarli Aðalsteinssyni, og öllum þátttakendum í ferðinni dugnað og ferðagleði.
Skrifað mánudaginn 4. mars 2002 sendandi gretar

Marsfundurinn var viku seinna en venjulega, svo allir væru örugglega komnir heim úr „101 Reykjavík“ ferðinni. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Toyota á Akureyri.
Anton sýndi vídeó úr ferðinni og Jörundur Þorgeirsson flutti ferðasögu.
Eftir kaffi var Arctic trucks með vörukynningu. Þar var nýja dekkið kynnt vandlega og ýmis konar aukabúnaður sýndur.

Enda þótt fjölskyldudagsins væri bara lauslega getið á aprílfundinum og síðan aðeins auglýstur á netinu komu 11 bílar í ferðina, þar af einn frá Húsavíkurdeild. Þátttakendur voru hins vegar hátt í 30 og margir ungir að árum.
Farið var út á Lágheiði eins og áætlað var og út af nýmokuðum veginum við sæluhúsið. Þar kom í ljós að snjóþekjan var ekki mjög þykk, því einn bíllinn datt með annað framhornið niður í holrúm yfir læk, en var kippt upp snarlega. Síðan var stundaður brekkuakstur og ungviðið renndi sér á slöngum og sleðum. Einn af þeim eldri fékk lánaðan sleða og taldi þetta miklu skemmtilegra en að vera á bílnum! Jörundur og Edda hurfu
hins vegar upp á næsta fjall, en komu fljótlega aftur.
Síðan var ekið niður á Ólafsfjörð og fóru sumir þá beint heim en aðrir lögðust fyrst í dorgveiði á vatninu