Réttartorfa: lýsing á húsinu og búnaði þess

Mynd af Réttartorfu

Skálinn er reistur á þykkri jarðvegstorfu, sem nefnist Réttartorfa. Nafnið kemur til af því að á henni var rétt, þar sem Mývetningar og Bárðdælir drógu fé sitt sundur. Mótar enn fyrir veggjum réttarinnar. Sunnar lækkar torfan og verður sléttari. Þar reistu Bárðdælir gangnamannahús 1976. Á húsið var sett útskorið skilti með nafninu Réttarkot, en bændur á næsta bæ vilja ekki kannast við það nafn á húsinu og telja það mistök þess er skar.
Eyjafjarðardeild 4x4 samdi við Bárðdæli um að klúbburinn reisti þar nýjan skála, sem gangnamenn hefðu til afnota, en klúbburinn ætti. Húsið var gert fokhelt á einni helgi 15.-17.júlí 1994 og síðan hefur verið unnið eitthvað við það nær árlega.

Skálinn er A-hús, um 60 fermetrar að grunnfleti. Niðri er forstofa, eldhús og salur. Uppi er svefnloft.
Í skálanum eru nú 36 dýnur og eru þær vel breiðar. Leggja má 15 dýnur á svefnloftið en vel geta verið um 20 manns á þeim, sé þörf á að þjappa. Niðri eru fjórar dýnur á bálki og talsvert gólfpláss.
Í eldhúsi er steinolíukabyssa og er hún tengd við miðstöðvarofn í endanum á salnum og þurrkgrind í forstofu. Einnig er þar gaseldavél með fjórum hólfum og bakarofni, gasofn og vaskur þar sem hægt er að fá rennandi vatn vetur sem sumar. Í salnum eru núna 5 borð og sæti fyrir 20 manns og borðbúnaður fyrir 24.
Raflýsing er með sólarraflöðu (12V) og úti á snyrtihúsi með þurrsalerni býr ljósavél sem hægt er að gangsetja og fá þannig nokkur kW af 220V rafmagni til að reka aflfrek tæki og til lýsingar í húsinu Einnig má lýsa upp svæðið milli húsanna með miklum ljóskastara sem er á stafni skálans þegar ljósavélin er í gangi.
Pallur er hringinn í kringum skálann og göngubrú er yfir að snyrtihúsi og að stiga sem liggur niður á bílastæðið sunnan torfunnar.
Nú er einnig komin viðbygging við húsið og er verið að innrétta hana. Þar verður vatnssalerni og geymsla.